Joshua Shintani, sem var best þekktur fyrir leik sinn í gamanmyndinni Shallow Hal, og gekk þar undir nafninu Li’iBoy, er látinn. Hann lést á Hawaii eyjunni Kauai, og var 32 ára þegar hann lést.
Samkvæmt frétt TMZ vefjarins þá fór móðir hans með hann í flýti á slysadeild snemma í síðustu viku. Hann lést svo á miðvikudag, eftir að læknar komust að því að hann stríddi við slæma lungnabólgu.
Leikarinn lék í aðeins einni mynd, fyrrnefndri Shallow Hal þar sem þau Gwyneth Paltrow og Jack Black fóru með aðalhlutverk, en myndin fjallaði um mann, Black, sem hreifst af innri fegurð kvenna í stað ytra útlits.
Í myndinni lék Shintani mann frá Hawaii sem lék á ukulele og söng lagið Never Forget Where I’m From, þar sem hann sat við hlið persónu Jason Alexander á bekk.
Leikstjóri myndarinnar, Peter Farrelly, var í fríi á Hawaii þegar hann uppgötvaði Shintani, sem þá var í efsta bekk miðskóla, þar sem hann lék á ukulele-ið sitt fyrir utan bókasafnið. Hann fór með hann í prufu til Los Angeles og Shintani fékk hlutverkið skömmu síðar.