Þessi Gullkorn birtust fyrst í ágústhefti Mynda mánaðarins:
Leikarar sem mér finnst góðir? Ég elska Mark Ruffalo og Marion Cotillard. Fyrir mér er Marion besta leikkona í heimi.
– Shailene Woodley.
Ég veit ég hef fengið sum hlutverk út á útlitið. Ég vona samt að í framtíðinni fái ég hlutverkin út á getuna.
– Theo James.
Það þarf ekki að laga það sem er ekki bilað.
– Kurt Russell, um það hvers vegna hann og Goldie Hawn, sem hafa búið saman í 32 ár, hafi aldrei gengið í hjónaband.
Þegar allt kemur til alls þá snýst þetta allt um að þeir sem maður elskar séu hamingjusamir og heilsuhraustir.
– Paul Walker.
Ég er ekki hugrakkur. Ég er hins vegar ágætur í að þykjast vera það.
– Tom Hardy.
Ég var í kringum 11 ára. Mamma ætlaði að fara að refsa mér fyrir eitthvað sem ég gerði og ég sagði eitthvað sem fékk hana til að hlæja í stað þess að vera reið. Ég hugsaði þá með mér að fyrst ég gæti bjargað mér frá refsingu með því að vera fyndinn þá ætti ég kannski
að leggja það fyrir mig.
– Kevin Hart, að svara því hvenær hann hefði ákveðið að gerast gamanleikari.
Ég lít vel út í kafarabúningi.
– Alison Brie, að segja frá sínum helstu kostum að eigin mati.
Mundu að vera alltaf þú sjálfur – nema þú sért frekar leiðinlegur.
– Joss Whedon.
Að hafa komist svona nálægt dauðanum breytti algjörlega sýn minni á allt. Mesta breytingin var fólgin í að eftir þessa reynslu er ég þakklátur fyrir öll þau tækifæri sem ég fæ og fyrir hverja mínútu sem ég fæ að lifa.
– Mark Ruffalo, sem greindist með heilaæxli árið 2002 og þurfti að fara í heilauppskurð þar sem tvísýnt var um útkomuna. Hann lamaðist að hluta í andliti en náði sér síðan að fullu.
Slúðurblöðin búa bara til sínar eigin ósönnu sögur og draga svo af þeim ályktanir sem eru alveg út í hött. Það versta er að til skuli vera fólk sem trúir lygunum en það eina sem maður getur gert í málinu er að leiða það hjá sér.
– Elizabeth Olsen.
Allir sem hafa fengið sér húðflúr vita að á þeirri mínútu sem þú gengur út með þitt fyrsta ertu farinn að hugsa um það næsta. Þetta er vanabindandi.
– Chris Evans.
Leiklist getur aldrei orðið keppni. Eini leikarinn sem maður getur mögulega keppt við er maður sjálfur.
– Ed Harris.
Ég lærði leiklist, ekki að verða stjarna. Það hefur kostað mig mikinn pening.
– Vincent D’Onofrio.
Ekki búa til áætlanir, búðu til tækifæri.
– Jennifer Aniston.
Mitt fyrsta leikverkefni eftir að ég útskrifaðist úr skólanum var í grískum harmleik. Síðan hefur mig aldrei skort vinnu. Ég er mjög heppin manneskja.
– Hayley Atwell, sem útskrifaðist úr Guildhall School of Music and Drama í London árið 2005.
Ég hugsa stundum til þess dags þegar við Wes (Anderson) vorum að tala um þá hugmynd okkar að það gæti verið gaman að búa til kvikmynd.
– Owen Wilson.
Mamma var með alls konar brothætta hluti uppstillta á heimilinu og ég þurfti stöðugt að passa mig á að reka mig hvergi í neitt. Þegar ég eignaðist heimili sjálf hafði ég þetta þveröfugt. Það er ekkert á mínu heimili sem má ekki detta á gólfið og brotna þannig að krökkum er alveg óhætt þar.
– Cybill Shepherd.
Það er algengur misskilningur að leikur snúist um að þykjast vera einhver önnur persóna en maður er. Í raun snýst leiklistin um að finna persónuna sem maður ætlar að leika innra með sér því þar er hún.
– Peter Bogdanovich.