Benedikt Erlingsson var útnefndur besti leikstjórinn á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tókýó nú rétt fyrir helgi. Verðlaunin hlýtur hann fyrir fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Hross í oss, sem tók þátt í aðalkeppni hátíðarinnar.
Í tilkynningu Kvikmyndamiðstöðvar segir að Hross í oss hafi nú tekið þátt í tveimur „A“ kvikmyndahátíðum og hlotið leikstjóraverðlaun á báðum þeirra, en Benedikt var valinn besti nýi leikstjórinn á kvikmyndahátíðinni í San Sebastián nýverið. „Þessi tvö verðlaun eru því mikill heiður fyrir hann sem og aðra aðstandendur myndarinnar.“
Næst á dagskrá hjá Hross í oss er þátttaka í Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi þar sem hún mun verða opnunarmynd hátíðarinnar. Hross í oss er einnig framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2014 en Akademían bandaríska mun tilkynna allar tilnefningar þann 16. janúar 2014.