Tökur eru hafnar á apaplánetumyndinni Dawn of the Planet of the Apes, sem er framhaldið af Rise of the Planet of the Apes frá árinu 2011.
Hingað til hefur söguþráður myndarinnar verið á huldu, en hægt og hægt hafa komið fram nýjar upplýsingar. Vitað er Caesar, hinn eitursnjalli Simpansaapi, sem Andy Serkis leikur, mun verða í forgrunni. Einnig er vitað að myndin á að gerast 15 árum eftir að Rise of the Planet of the Apes endar og einnig er vitað að í myndinni kemur við sögu hópur vísindamanna sem reynir að stöðva uppreisn apanna.
Þetta eru þó bara nokkur púsl sem hafa verið að týnast inn síðustu mánuði, en nú er kominn opinber söguþráður frá 20th Century Fox kvikmyndaverinu.
Í tilkynningu frá þeim kemur fram að tökur á myndinni séu hafnar og sagan sé eftirfarandi: Sífellt stækkandi hópur af erfðabreyttum öpum undir stjórn Caesar, mætir nú andspyrnu frá hópi manna sem lifði af hinn stórhættulega vírus sem slapp út áratug fyrr. Þeir semja um vopnahlé, sem reynist verða skammlíft, þar sem báðir aðilar búa sig undir stríð sem mun ákvarða hvaða tegund muni verða ráðandi á Jörðinni í framtíðinni.
Auk þessara upplýsinga þá hefur verið staðfest að leikararnir Toby Kebbell, úr RocknRolla, og Enriquie Murciano, úr Traffic, séu búnir að ráða sig í hlutverk í myndinni og bætast þar með í leikarahópinn með Serkis og Jason Clarke, Gary Oldman, Keri Russell, Kodi Smit-McPhee, Kirk Acevedo og Judy Greer.
Myndin verður frumsýnd 23. maí 2014.