Flestir af hinum stökkbreyttu sem þekkjast úr fyrri X-Men myndum munu snúa aftur í nýjustu kvikmyndinni X-Men: Days of Future Past. Mikið hefur verið deilt um hverjir muni bætast í hópinn, en leikstjórinn Bryan Singer sló á það tal allt saman þegar hann setti myndbrot á netið nýlega.
Myndbrotið sýnir stóla sem eru kunnuglegir á kvikmyndasetti og eru nöfn persónanna rituð á stólanna. Nöfnin Bishop og Warpath náðu athygli okkar og hefur meðal annars Intouchables leikarinn Omar Shy verið nefndur í fyrrnefnda hlutverkið. Það hefur verið minna talað um Warpath en líklegt er að Twilight leikarinn Booboo Stewart muni leika hann því Warpath er af Indjána-ættum og er Stewart sá eini í leikarahópnum sem gæti passað í það.
Warpath getur ferðast á ótrúlegum hraða og er mjög líkamlega sterkur. Hann hefur einnig skilningarvit sem varar hann við hættum og getur meðal annars flogið.
Bishop er einhverskonar orkulind, sem safnar orku og útbýr orku sem vopn.
X-Men hefur í gegnum tíðina sankað að sér stórleikurum og stór gagnagrunnur leikara hefur myndast fyrir öll hlutverkin sem hafa skapast og má þar nefna Hugh Jackman, Ian McKellen, Patrick Stewart, James McAvoy, Jennifer Lawrence, Nicholas Hoult, Michael Fassbender, Anna Paquin, Ellen Page, Shawn Ashmore, Peter Dinklage, Daniel Cudmore, Adan Canto og Fan Bingbing.
X-Men: Days of Future Past verður frumsýnd þann 18. júlí, 2014.