Það voru ekki allir eins hrifnir af The Order of the Phoenix og ég var, en það verður að hafa það. Leikstjóri þeirrar myndar, David Yates, er þessa dagana á fullu í eftirvinnslu sjöttu myndarinnar (sem ber heitið The Half-Blood Prince), en það lítur einnig út fyrir að aðstandendur Warner Bros. séu nógu hrifnir af vinnu hans til að leyfa honum að klára pakkann.
Yates ætlaði sér að sjá um kvikmyndina The Giver eftir Potter 6, en nú lítur út fyrir að það frestist ef hann mun koma til með að leikstýra sjöundu og síðustu ræmunni.
Að sjálfsögðu er ekkert alveg 100% þessa stundina, en Yates er um þetta leyti líklegastur til að sjá um Deathly Hallows.
Fyrir ykkur sem hafa lesið síðustu bókina, þá eruð þið sjálfsagt meðvituð um þessa epísku framvindu sem er væntanleg og get ég sjálfur ekki ímyndað mér annað en að mikil eftirvænting sé eftir myndinni.
En þangað til að eitthvað annað kemur í ljós þá er Yates merktur í leikstjórastólnum, en svona til gamans þá hafa aðrir merkilegir leikstjórar verið orðaðir, svo sem nöfn á borð við Guillermo del Toro (Hellboy, Pan’s Labyrinth), Alfonso Cuarón (sem sá einmitt um þriðju myndina) og jafnvel Steven Spielberg.

