Ný stikla er komin fyrir mynd með Elijah Wood í aðalhlutverkinu, Maniac, eða Brjálæðingur í lauslegri þýðingu. Áður hafa birst á netinu tvær stiklur og sex mínútna byrjunaratriði, en þessi stikla hér að neðan var sett saman í tilefni af frumsýningu myndarinnar í Bretlandi í næsta mánuði, en myndin var upphaflega frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni síðasta vor.
Sjáðu stikluna hér að neðan:
Myndin fjallar um fjöldamorðingja með blæti fyrir því að flá höfuðleður af fólki.
Frank er eigandi gínubúðar, en líf hans breytist þegar ung listakona, Anna, birtist og biður um hjálp við nýja sýningu sem hún er með. Eftir því sem vinátta þeirra þróast og þráhyggja Frank eykst, þá verður ljósara með hverjum deginum að Anna hefur leyst úr læðingi bælda þrá Frank í að elta fólk og drepa það með hryllilegum hætti.
Aðalkvenhlutverkið er í höndum Nora Arnezeder og leikstjóri er Franck Khalfoun.
Maniac verður frumsýnd 15. mars í Bretlandi.