Gamanmyndin Identity Thief með leikurunum Melissa McCarthy og Jason Bateman, hefur slegið í gegn í bandarískum bíósölum nú um helgina, en myndin stefnir í 34,8 milljónir Bandaríkjadala í tekjur eftir helgina. Myndin var aðsóknarmesta myndin á föstudaginn með áætlaðar 11,2 milljónir dala í tekjur.
Í Bandaríkjunum hefur geisað vetrarstormurinn Nemo með tilheyrandi snjókomu sem hefur sett bíóferðir landsmanna í uppnám, og kemur þar með niður á tekjunum.
Þónokkuð af bíóhúsum eru lokuð í Nýja Englandi og í Boston, eða sem samsvarar um 2% af áætlaðri bíóaðsókn.
New York, sem er langmesta bíóborg Bandaríkjanna í aðsókn talið, slapp mun betur við storminn, og hann hefur því ekki haft eins mikil áhrif þar í borg.
Ef að Identity Thief þénar meira en 28,8 milljónir dala yfir helgina, sem eru tekjurnar sem hrollvekjan Mama fékk, þá mun myndin verða tekjuhæsta frumsýningarmynd ársins í Bandaríkjunum.
Sjáðu stikluna úr Identity Thief hér að neðan:
Myndinni er leikstýrt af Seth Gordon og McCarthy leikur þar sitt fyrsta aðalhlutverk síðan hún sló í gegn í gamanmyndinni Bridesmaids, en hún þénaði 26 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni árið 2011.
Jason Bateman leikur í myndinni mann sem verður fórnarlamb konu sem stelur persónueinkennum hans.
Upphaflega kom Bateman með hugmyndina til framleiðandans Scott Stuber en þá voru aðalhlutverkin í höndum tveggja karla, en eftir að hafa séð McCarthy í Bridesmaids skiptu þeir öðru karlhlutverkinu út fyrir konu.
Aðrir leikarar í myndinni eru Amanda Peet, Jon Favreau og Tip „T.I.“ Harris.
Önnur mynd sem frumsýnd var núna um helgina var geðtryllir Steven Soderbergh, Side Effects, með Rooney Mara og Channing Tatum í aðalhlutverkum. Myndin þénaði 3 milljónir dala á föstudag, og áætlað er að hún þéni um 9-10 milljónir dala yfir alla helgina.
Side Effects fjallar um hættuna af notkun þunglyndislyfja og um lyfjaiðnaðinn. Jude Law og Catherine Zeta-Jones leika einnig í myndinni.
Myndin, sem Soderbergh hefur sagt að verði síðasta kvikmyndin sem hann gerir, verður sýnd á kvikmyndahátíðinni í Berlín í næstu viku.