Frumsýning – The Impossible

Sambíóin frumsýna bíómyndina The Impossible föstudaginn 21. desember nk.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að hér sé á ferðinni stórkostleg mynd sem segir frá ótrúlegri sögu fjölskyldu sem lendir í ógnvænlegum náttúruhamförum árið 2004.

„Myndin hefur hlotið lof gagnrýnenda víðsvegar en þess má einnig geta að Naomi Watts er tilnefnd til Golden Globe verðlauna fyrir leik sinn í The Impossible,“ segir í tilkynningunni.

Sjáðu stikluna úr myndinni hér að neðan:

Á annan dag jóla árið 2004 olli jarðskjálfti í Indlandshafi gríðarlegri flóðbylgju sem á endanum kostaði yfir 227.000 manns lífið í 14 löndum. Í The Impossible er sögð sönn og mögnuð saga fimm manna fjölskyldu sem upplifði þessar náttúruhamfarir.

„Það er meistaraleikstjórinn Juan Antonio Bayona (The Orphanage) sem færir okkur þessa sýn á það sem gerðist þennan örlagaríka dag.
Mikil áhersla hefur verið lögð á að endurskapa atburðarásina á sem sannastan hátt, ekki síst hvernig það var að vera á staðnum þegar flóðbylgjan, sem sums staðar náði yfir 30 metra hæð, skall á strandlengjunni án nokkurrar viðvörunar.“

Söguþráður myndarinnar er þessi: Hjónin Henry og Maria eru ásamt sonum sínum þremur, þeim Simoni, Thomasi og Lucasi, stödd í sumarleyfisparadís í Tælandi og hafa bæði haft það gott og skemmt sér vel það sem af er ferðinni.

Um tíuleytið að morgni 26. desember er fjölskyldan ásamt fjölda annarra að njóta lífsins við hótelið sem þau gista á þegar andrúmsloftið breytist skyndilega. Einhver óáþreifanleg ógn er í lofti. Örskömmu síðar skellur há og kraftmikil flóðbylgjan á ströndinni, tætir í sig allt sem fyrir verður og hrífur með sér fólk og brak.

Skelfingin var nánast ólýsanleg og við tók margra mínútna lífsbarátta þar sem hver og einn gat lítið annað gert en að reyna að komast af í ægivaldi flóðsins. Og þegar allt var um garð gengið og flóðbylgjan hafði sjatnað blasti lítið betra við …

Aðalhlutverk: Ewan McGregor, Naomi Watts, Tom Holland, Geraldine Chaplin, Marta Etura, Samuel Joslin og Oaklee Pendergast.

Leikstjóri: Juan Antonio Bayona

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri

Aldurstakmark: 12 ára.

Nokkrir fróðleiksmolar til gamans: 

Margir af aukaleikurum myndarinnar eru í raun eftirlifendur náttúruhamfaranna sem myndin greinir frá.

Naomi Watts er tilnefnd til Golden Globe verðlauna fyrir leik sinn í The Impossible.

The Impossible er ein aðsóknarmesta mynd allra tíma á Spáni og náði t.a.m. Skyfall (James Bond) ekki toppsætinu af The Impossible þrátt fyrir að hún hefði verið á sinni 4 sýningarviku.

Dómar
100/100 – Variety
100/100 – The Hollywood Reporter
100/100 – New York Observer
83/100 – Entertainment Weekly
80/100 – The Guardian