Nýtt og glæsilegt Sambíó

Framkvæmdum í Sambíóunum Kringlunni er nú formlega lokið en unnið hefur verið að breytingum þar undanfarna mánuði. Bíóið opnar formlega á morgun, 25. október.


Alfreð Árnason framkvæmdastjóri Sambíóanna í nýja bíóinu.

Bíósalirnir hafa tekið stórfelldum breytingum til hins betra með tilkomu nýrra veggklæðninga, gólfteppa, lýsingar, auknu fótarými fyrir gesti auk nýrra sæta.


Aukið fótarými.

Í frétt frá Sambíóunum segir að breytingarnar séu það miklar að í raun sé hægt að tala um nýtt bíó.

Útlitið á Sambíóunum Kringlunni í dag er það sama og er í Sambíóunum Egilshöll og því hægt að fullyrða að með endurbótum á Sambíóunum Kringlunni fylgi aukin gæði og þægindi fyrir hinn íslenska kvikmyndaáhugamann.


Salurinn lítur mjög vel út.

 Umsjón með útliti var Birgir Örn Einarsson hönnuður en hann hafði einnig umsjón með Sambíóunum Egilshöll. Auk Birgis kom Ragnar Auðunn Birgisson arkitekt ásamt THG Arkitektum að verkefninu.

Verkefnið var samvinnuverkefni fasteignafélagsins Reita og Sambíóanna.