Úr Hungurleikum í hryllingsmynd

Leikkonan Jennifer Lawrence sló í gegn í Hungurleikunum og virðist stjarna hennar vera að rísa ansi hratt í Hollywood um þessar mundir. Hún samþykkti fyrir nokkru síðan að leika í hryllingsmyndinni House at the End of the Street sem kemur í bíó í september. Í dag var ný stikla fyrir myndina birt.

Í House at the End of the Street leikur Jennifer unga konu að nafni Elissa sem flytur með móður sinni í nýtt hverfi og kynnist þar ungum dreng. Hún kemst fljótt að því að fjölskylda drengsins var myrt á dularfullan hátt og eftir það hefur hann verið útlagi í samfélaginu. Elissa er staðráðin í því að finna út hver myrti fjölskyldu drengsins en eina spurningin er hvort hún verði næsta fórnarlambið.

Mark Tonderai leikstýrir myndinni, en hann er töluvert óreyndur og telst þetta því hans fyrsta stórmynd. Elizabeth Shue og Max Thieriot leika einnig í myndinni. Hún er PG-13 sem þýðir að það er lítið um blóðslettur og brútal morð (því miður?). Stikluna má sjá hér fyrir neðan.

Þetta finnst mér afar óspennandi, og stiklan sýnir allt of mikið! Jennifer stóð sig það vel í Hungurleikunum að flestir vita að hún er betri leikkona en þetta og á ekki að sætta sig við að leika í svona myndum. Ég er langt frá því að vera hrifinn, step up your game. Hvað finnst ykkur, er ég sá eini ?