… Og Tom Cruise lífvörðurinn hans?
Orðrómar segja að leikstjórinn Jay Roach (Austin Powers, Meet the Parents) ætli sér að reyna að sameina þá Tom Cruise og Robert Downey Jr. í aðalhlutverk næstu myndar sinnar, El Presidente. Myndin fjallar um metnaðarfullan leyniþjónustumann sem fær það einfalda verkefni að vakta mjög svo skrautlegan fyrrverandi forseta. Að sjálfsögðu verður verkefnið ekki eins auðvelt og gert var ráð fyrir.
Þetta eru mjög snemmbúnar fréttir, en ef úr þeim rætist ætti að vera spennandi að sjá lokaafurðina. Síðasta mynd sem þeir Cruise og Downey áttu báðir þátt í var að mínu mati ein ferskasta gamanmynd síðari ára. Þó að þeir yrðu eflaust ekki eins ýktir karakterar og í Tropic Thunder held ég að gamanmynd sem þessir tveir leikarar bera uppi gæti orðið algjör snilld. Þó Jay Roach hafi gert misjafnar myndir í gegn um tíðina gæti hann alveg verið rétti maðurinn til að láta svona mynd virka.
Myndin mun þó ekki gíra sig í gang alveg strax ef af verður, Cruise verður sem þekkt er á Íslandi í sumar að taka upp sci-fi myndina Oblivion, rétt eins og Iron Man 3 mun halda Downey uppteknum næstu mánuðina. En engu að síður spennandi fréttir. Hvað segja lesendur?