Óskarsverðlaunin verða afhent næstkomandi sunnudag við hátíðlega athöfn í 84. sinn. Búist er við því að um 40 milljónir Bandaríkjamanna muni horfa á verðlaunaafhendinguna og eins og flestir vita þá er þetta stærsta verðlaunaafhending sinnar tegundar í kvikmyndabransanum.
Mikið er í húfi fyrir þær myndir sem eru tilnefndar, en Óskarsverðlaun geta þýtt meiri tekjur fyrir myndina ásamt því að orðspor þess sem hlýtur verðlaunin, hvort sem það er leikstjóri, handritshöfundur eða leikari, hlýtur ágætis ‘boost’.
Los Angeles Times eyddi um það bil mánuði í rannsóknarvinnu til þess að finna út hverjir velja Óskarsverðlaunahafana ár hvert. Árlega fellur það í skaut nefndar sem ber nafnið Academy of Motion Picture Arts and Sciences að velja þá sem skarað hafa fram úr að þeirra mati. Nefndin gefur ekki út lista yfir meðlimi og því er ekki vitað í raun hverjir eru í henni – þangað til núna.
LA Times tókst að finna út nöfn 90% af nefndarmeðlima og komst að áhugaverðum niðurstöðum. Nefndarmeðlimir eru 5.765 talsins og vegur atkvæði hvers og eins líkt. Það sem kemur mest á óvart er hversu einsleitur hópurinn er, en meðalaldurinn er 62 ár og aðeins 14% eru yngri en fimmtugt. Hvorki meira né minna en 94% af nefndarmeðlimum er hvítur á hörund.
Leikstjórar eins og Woody Allen og George Lucas eru ekki meðlimir nefndarinnar á meðan að Vin Diesel (!), Madonna, Haley Joel Osment og Meat Loaf eiga fast sæti.
Áhugasamir geta séð meira um tölfræðina á bakvið rannsóknina hér ásamt ítarlegri fréttaumfjöllun um málið. Ég er allavega í nettu sjokki yfir því að vita hverjir ákveða hverjir fá Óskarsverðlaun og hverjir ekki.