Friðrik Þór og Heilsubælið á DVD

Vegna góðra sölu á íslensku sjónvarpsefni á DVD eru nú viðræður um að auka áherslur á þessar útgáfur. Skammst er frá því að segja að Næturvaktin hefur slegið öll met. Eldra efni hefur líka vakið mikla lukku eins og Fóstbræður. Fréttablaðið sagði frá því um helgina að næsta útgáfa verði líklega Heilsubælið, en það voru með fyrsta innlenda sjónvarpsefninu sem Stöð 2 framleiddi og sýndi. Hugmyndir eru líka um að endurútgefa kvikmyndir Friðriks Þórs í sérstökum pakka, svipað og Tarantino pakkinn sem hefur verið fáanlegur um nokkuð skeið. Vonandi verða þar líka myndir sem enn hafa ekki fengið DVD útgáfu, svo sem Rokk í Reykjavík sem hefur lengi verið illfáanleg. 


Við hjá kvikmyndir.is fögnum þessum viðræðum mjög og þetta gæti fullnægt þörfum okkar um sinn, en Senan vill ekki hætta þar. Við munum öll eftir þegar klassísku Ástríkur og Lukkulákamyndirnar fengu íslenska útgáfu og fagnaði ég því mjög. En núna fá líklega enn meiri gullmolar sína íslensku DVD útgáfu, en það eru Einu sinni var… og Strumpa þættirnir. Man sérstaklega eftir blóðkornunum í frönsku teiknimyndunum þegar ég var lítill og lærði mun meira um líkamann við það að horfa á þessa þætti heldur en ég lærði í skólanum. Og hver getur gleymt óborganlega dagatalinu sem kom alltaf uppi í hornið til að sýna ártalið hverju sinni.

Ég get varla haldið vatni yfir öllum þessum tíðindum. Þetta er þó allt á mismunandi frumstigi en við getum bara vonað að þetta verði allt að veruleika á komandi ári. Ég óska þess líka að þetta sé bara upphafið af fleirum gullmolum sem eigi eftir að fá DVD útgáfu hér á landi.