Tvisvar sinnum tvær í röð

Það virðist vera orðið daglegt brauð að tvær íslenskar kvikmyndir séu frumsýndar sama dag. Fyrir tveim vikum voru kvikmyndirnar Eldfjall og Hrafnar Sóleyjar & Myrra frumsýndar. Í gær voru svo Hetjur Valhallar – Þór úr framleiðslu Caoz, og Borgríki eftir Ólaf Jóhannesson frumsýndar.
Hetjur Valhallar – Þór er byggð á norrænni goðafræði og er fyrsta kvikmynd í fullri lengd sem Caoz framleiðir, en þeir gerðu einnig Litlu ljótu lirfuna og Önnu & skapsveiflurnar. Hetjur Valhallar -Þór er leikstýrt af Óskari Jónassyni og meðal þeirra sem ljá persónum myndarinnar rödd sína eru Atli Rafn Sigurðsson, Laddi, Egill Ólafsson og Ágústa Eva Erlendsdóttir.
Borgríki er hinsvegar glæpasaga með Ágústu Evu Erlendsdóttur, Ingvari E. Sigurðssyni, Sigurði Sigurjónssyni og Zlatko Krickic í aðalhlutverki. Leikstjóri er Ólafur Jóhannesson. Framleiðslan á Borgríki átti í fjárhagslegum erfiðleikum og var á tímabili ekki víst hvort hún mundi klárast. Það muna líklega margir eftir stiklunni úr myndinni sem endaði á spurningunni hvort þessi mynd muni nokkurtíman klárast. Var það hluti af stærri herferð sem byrjaði í kjölfar þess að skera átti verulega niður hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Því er það sérstaklega ánægulegt að sjá þessa mynd kláraða í dag.

Meðal væntanlegra íslenskra kvikmynda má nefna Svartur á leik, Djúpið, Þetta reddast og Vikingr.