Sumir eru á fullu í prófum, aðrir búnir að halda sér utandyra eins og þeir eigi ekkert heimili vegna óvenjulega mikils hitastigs sem við höfum fengið síðustu daga. Annars er komið að Áhorfinu góða, og notendur upplýsa því fyrir okkur hinum hvað þeir hafa verið að horfa á með meðfylgjandi einkunn. Klámmyndir taldar með.
Mín vika var heldur basic. Ein bíóferð – og þá á mynd sem ég hafði þegar séð – og fullt af glápi um leið og sólin settist. Af einhverjum ástæðum festist ég talsvert í „mid-to-late-90s“ myndum.
Skal byrja.
Fast Five (2. áhorf) – 7/10
Fíl´edda. Vona að sjötta myndin leyfi seríunni að hoppa um bíógeira aftur.
Mouse Hunt – 6/10
Ég tengdi nýlega aftur gamalt VHS tæki eftir að hafa fundið tvo fulla kassa af spólum inní geymslu. Þar af leiðandi er ég búinn að eiga nokkur dásamlega „retró“ bíókvöld. Mouse Hunt er sérkennileg mynd sem er leikstýrð af nokkrum Gore Verbinski (ein af hans fyrstu myndum), sem seinna gerði auðvitað The Ring, Pirates 1-3 og Rango. Þessi mynd hefur skemmtilegan slapstick teiknimyndatón í bland við frekar dökkan stíl en fljótlega verður maður þreyttur á endurtekningunum og maður aldrei ekki hvort maður eigi að halda með mönnunum eða músinni.
Small Soldiers – 7/10
Hafði ekki séð þessa í milljón ár. Hélt í smástund að þetta væri ein af þessum nostalgíumyndum sem var einungis betri í minningunni (var 11 ára þegar hún kom út) en hún var ennþá hlaðin fjöri. Fín klisjusaga með skemmtilegu ofbeldi og handriti sem tekur sig aldrei alvarlega. Verst að maður geti ekki sagt að CGI-ið líti jafn raunverulega út í dag og það gerði þá.
What Women Want – 7/10
Svakalega fín mynd samt sem ég hafði ekki séð síðan… 2001 eða 2002. Sýnir manni að Mel Gibson hafi einu sinni verið „meðetta“ á sínum tíma. Ekki bara töffari heldur fyndinn sjarmör líka sem fær ansi heillandi þroskasögu hérna. Helen Hunt fer samt eitthvað svo í mig stundum og ég þoli ekki hvað Nancy Meyers þarf alltaf að gera myndirnar sínar 10-15 mínútum lengri en þær þurfa að vera, með útteygðri melódramatík eða væmni sem uppfylling. Lokasenan fellur líka alveg í sundur. En notaleg mynd samt.
L.A. Confidential – 9/10
Brilliant mynd. Fæ aldrei leið á henni.
Broken Arrow – 7/10
Enn eitt VHS-ið! (ég hafði gleymt því hversu mikið fullscreen fer í taugarnar á mér þegar myndin er skotin á 2:35:1)
Engu að síður skemmtileg hasarmynd (og önnur af tveimur amerísku John Woo-myndunum sem var meira en „alltílæ“) sem er mátulega over-the-top á köflum. Það er samt erfitt að sjá hana sem annað en 100 mínútna langa pissukeppni á milli Travolta og Slater. Góðar stundir.
Up in Smoke – 7/10
Mynd sem veit alveg hvað hún vill vera (eða fyrir hverja?) og hefur bara gaman að því. Því miður er ekki hundsvit í henni stundum og oft hoppar hún yfir atvik án þess að útskýra nákvæmlega hvað gerðist. Skítt með það samt, hún er tussufyndin! Þarf svo að kíkja á hinar Cheech & Chong myndirnar allar aftur.
Sabrina (gamla) – 8/10
Ein af mínum uppáhalds alveg frá því í æsku enda mynd sem kemur manni einhvern veginn alltaf í betra skap. Það var einhver sem sagði hérna í síðustu viku að Audrey Hepburn væri yndislegasta leikkona allra tíma og ég get ómögulega verið ósammála því. Það geislar svo mikið af þessari konu að þú getur aldrei tekið augun af henni, og sjarmi hennar bræðir mann alveg. Það er algjör brandari að Julia Ormond skuli hafa reynt að feta í fótspor hennar í endurgerðinni. Ekkert spes mynd heldur.
Kv.
T.V.
Lát heyra!