Gullni Lundinn veittur í kvöld

Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík lýkur með veglegri veislu í aðalútibúi Landsbankans í Austurstræti í kvöld. Hófið markar formlega lok stærstu kvikmyndahátíðar sem fram hefur farið á Íslandi þótt sýningar haldi raunar áfram á morgun, sunnudag.

Í lokahófinu verður gullni lundinn, aðalverðlaunagripur hátíðarinnar, veittur leikstjóra einnar af keppnismyndunum fimmtán. Formaður dómnefndar, Hal Hartley, veitir verðlaunin fyrir hönd dómnefndar, en auk hans sátu í dómnefnd Friðrik Þór Friðriksson og Gréta Ólafsdóttir.

Auk aðalverðlaunanna munu alþjóðlegu gagnrýnendasamtökin FIPRESCI, þjóðkirkjan og Amnesty International veita verðlaun, auk þess sem áhorfendaverðlaun hátíðarinnar verða veitt.

Þá fær breski leikstjórinn Peter Greenaway heiðursverðlaun í kvöld, en hann heldur fyrirlestur í Odda kl. 17:30 í dag.

Verðlaunaafhendingin hefst kl. 20:30.