Við hjá kvikmyndir.is mættum á opnunarhóf Reykjavik International Film Festival og tókum örfáar myndir af veislugestum og bíóáhugafólki.
Hrönn Marínósdóttir flutti ávarp á bíógesti ásamt því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom með sitt álit á hátíðinni og stóðu þær báðar sig með prýði. Dimitri Eipides, sérstakur dagskrárstjóri hátíðarinnar, sagði örfá orð um komandi hátíð. Það má þó segja að Grímur Hákonarson hafi stolið senunni með hörðum orðum sínum gegn íslenskum stjórnvöldum og bönkum, þar sem hann er greinilega ekki sáttur með atvinnutækifæri íslenskra kvikmyndagerðarmanna og fullyrðir að þeir fái meiri hjálp og athygli erlendis frá en frá Íslandi, og hótaði að yfirgefa landið!
Myndin Heima með Sigur Rós var sýnd við góðar viðtökur, enda meistaraverk þar á ferð og góð ástæða fyrir því að það er uppselt á allar sýningar Heima á RIFF í ár. Það var hinsvegar nokkuð skrýtið að sumir miðahafar fengu númeruð sæti á meðan almenningnum var hent uppí rjáfur, sem gekk ekkert rosalega vel upp. Síðar var haldið í veislu í gamla Kaaber húsinu sem var stórglæsileg í alla staði, með endalausu fríu áfengi þar sem Gulllundinn fékk að njóta sín meðfram veggjum og sem ísstyttur.
Við hjá kvikmyndir.is þökkum RIFF kærlega fyrir gott kvöld og hvetjum fólk til þess að fara á þessa frábæru hátíð!

