Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík verður sett við hátíðlega athöfn annað kvöld, fimmtudagskvöld. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra setur hátíðina, en auk hennar munu tala Hrönn Marinósdóttir, hátíðarstjórnandi, Grímur Hákonarson kvikmyndagerðarmaður mun flytja svokallaða „hátíðargusu“ sem hefð hefur skapast fyrir, og Sigurjón Sighvatsson flytur einnig ávarp.
Að ávörpunum loknum verður kvikmyndin Sigur Rós – Heima heimsfrumsýnd að kvikmyndagerðarmönnunum og hljómsveitinni viðstaddri. Boðsgestir halda síðan í opnunarveislu sem fer fram í O. Johnsen & Kaaber húsinu við Sætún.
Opnunarhátíðin markar upphaf stærstu kvikmyndahátíðar sem fram hefur farið hér á landi. Alls verða 87 myndir á dagskránni sem stendur yfir í ellefu daga, eða til 7. október. Um 200 erlendir gestir hafa boðað komu sína til landsins í tilefni af hátíðinni. Heiðursgestir hátíðarinnar eru Hanna Schygulla, Peter Greenaway og Aki Kaurismäki.
Fimmtán myndir keppa um aðalverðlaun hátíðarinnar – gullna lundann – sem verður veittur við hátíðlega athöfn við lok hátíðarinnar. Nánari upplýsingar um hátíðina eru í dagskrárriti sem hefur verið dreift víðsvegar um höfuðborgarsvæðið, og á vef hátíðarinnar, www.riff.is.
Miðasala á hátíðina hefur gengið vonum framar. Raunar hefur gengið svo vel að hátíðin sá sig knúna til þess að prenta nýtt upplag af hátíðarpössum og klippikortum sem eru nú til sölu. Miðasala fer fram á heimasíðu hátíðarinnar, í bíóhúsunum, og í upplýsingamiðstöð hátíðarinnar í Hressingarskálanum, Austurstræti 20.

