Dolph Lundgren sló í gegn í Hollywood sem Drago í Rocky 4 og sem He-Man í Masters of the Universe, en síðan þá hefur honum lítið orðið ágengt í stórum Hollywood myndum. Eða allt þangað til núna, en hann leikur ásamt fleiri nöglum í The Expendables, undir leikstjórn Sylvester Stallone.
Í viðtali sem Hollywood Reporter tók við kappann, sem er orðinn 52 ára, kemur fram að hann er með meistaragráðu í efnaverkfræði og talar 7 tungumál, auk þess að vera með svarta beltið og þriðja dan í karate. Þrátt fyrir það er lífseig sú ímynd af honum að hann sé heimskt sænskt vöðvabúnt.
Lundgren segist njóta þess nú að vera kominn í alvöru mynd, með félaga sínum Sly ( Stallone ) .
Lundgren er með mörg járn í eldinum, er að skrifa líkamsræktarbók og skrifa kvikmyndahandrit að mynd sem heitir Skin Trade og er um mansal. „Ég ætla að reyna að fá einhverja fræga leikara til að leika í myndinni. Ég ætla að leikstýra og leika meðhlutverk. Vonandi tekst mér að fá peninga í hana,“ sagði Lundgren vongóður.
Hann hefur mikinn áhuga á að gera stóra mynd í Hollywood, en einnig að gera sögulega mynd í Svíþjóð, en sjálfur telur hann svoleiðis myndir vera fullkomnar fyrir sig.
Lundgren segir að Svíar hafi fordóma og telji að hann sé bara heimskt kjötstykki, en þeir séu einnig fúlir yfir að hann hafi aldrei leikið í neinum Bergman myndum, en farið þess í stað beint til Hollywood að slátra fólki í hasarmyndum. Hann segir þó að ímyndin sé aðeins að lagast í Svíþjóð eftir að hann var kynnir í sænska Evróvisjón og dansaði þar og söng. „Þarna sá fólk alvöru mig, og áttaði sig á að ég er kannski ekkert heimskur eftir allt saman.“