211 brelluskot í Ráðherranum

Sigurgeir Arinbjarnarson, fagmaður í sjónrænum tæknibrellum, afhjúpaði sérstaka brellustiklu á dögunum fyrir sjónvarpsseríuna Ráðherrann. Alls voru 211 brelluskot í þáttunum átta.

Þættirnir nutu mikilla vinsælda en þar fer Ólafur Darri Ólafsson með hlutverk háskólakennarans Benedikts Ríkarðssonar sem er dreginn inn í pólitík. Hann endar sem formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins og verður í kjölfarið forsætisráðherra Íslands. Eftir nokkra mánuði í starfi fer að bera á andlegum veikindum hjá honum og þá þarf samstarfsfólk hans að leggja stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni.

Brellustikluna má finna hér að neðan, en athugið að þarna er sýnt úr atriðum sem gætu spillt fyrir þeim sem ekki hafa séð þættina.