Ekkert þarf að vera rökrétt

Eins og hrollvekjuunnendur þekkja þá er til hrollvekja fyrir nánast hverja stórhátíð ársins. Þar má nefna My Bloody Valentine fyrir Valentínusardag og Black Christmas fyrir Jólin. Það sama má segja um Þakkargjörðarhátíðina.

Eli Roth hefur nú sent frá sér eina slíka sem heitir einmitt Þakkargjörðarhátíð, eða Thanksgiving. Myndin kom í bíó á Íslandi um síðustu helgi.

Myndin er gerð eftir gervi-stiklu sem Roth gerði árið 2007 fyrir „Grindhouse“ sem var virðingarvottur leikstjóranna Quentin Tarantino og Robert Rodriguez við hraðsuðukvikmyndir (e. exploitation cinema).

Thanksgiving fjallar um grímuklæddan morðingja sem klæðir sig eins og pílagrímurinn John Carver sem kom með skipinu Mayflower til Bandaríkjanna árið 1620. Morðinginn hrellir íbúa í Plymouth ári eftir blóðug mótmæli á Þakkargjörðardeginum þar í borg.

Thanksgiving (2023)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.2
Rotten tomatoes einkunn 84%

Eftir að uppreisn á Svarta föstudeginum endar á hörmulegan hátt herjar dularfullur morðingi sem sækir innblástur í Þakkargjörðarhátíðina, á íbúa Plymouth, Massachusetts - sem er fæðingarbær hins alræmda frídags....

Í samtali við bandaríska dagblaðið The New York Times segir Roth að hann og æskuvinur hans og handritshöfundur nýju myndarinnar, Jeff Rendell, hafi dauðlangað að gera Þakkargjörðarhrollvekju allt frá því þeir voru litlir strákar. „Það var alltaf ládeyða milli október og fram í miðjan desember þegar allt snerist um fjölskyldumyndir,“ segir Roth. „Við biðum og biðum eftir að ný hrollvekja kæmi í bíó. Draumurinn var að fylla upp í þessa eyðu.“

Vildu vanda sig

Spurður af hverju það hafi tekið jafn langan tíma og það tók að gera myndina segir Roth að þeir hafi viljað vanda sig. „Við náðum ekki að líma söguna almennilega saman. Það skemmtilega við að gera gervi-stiklu er að þú færð að gera allt það besta úr kvikmynd og ekkert þarf að vera rökrétt. Í mörg ár vorum við að hugsa, af hverju ætti einhver að klæða sig upp eins og pílagrímur og gerast morðóður? Hvernig ferðu frá einu morði til þess næsta án þess að þér líði eins og það sé 90 mínútna útgáfa af stiklunni?“

Að lokum áttaði Roth sig á lausninni „Hvað ef við létum eins og það hefði verið gerð Þakkargjörðarhátíðarmynd árið 1980 en hún hafi verið svo móðgandi og stuðandi á frumsýningardaginn að hver einasta útgáfa hennar hafi verið tekin úr sýningum og eytt. Það eina sem eftir hafi verið var eitt afrit af stiklunni sem hefði þvælst um í dýpstu myrkrum síðan þá. Þetta er endurræsing á kvikmyndinni eins og hún gæti hafa verið.“