12 Years a Slave frumsýnd á föstudaginn

12yearsEin magnaðasta mynd ársins, 12 Years a Slave, verður frumsýnd hér á landi á föstudaginn, 17. janúar. Myndin hlaut Golden Globe verðlaunin fyrir bestu mynd í dramaflokki en myndin hlaut 7 Golden Globe tilnefningar. Gera má ráð fyrir því að myndin hljóti margar tilnefningar til Óskarsverðlauna þegar þær verða tilkynntar á morgun.

12 Years a Slave er leikstýrt af meistaraleikstjóranum Steve McQueen (Shame, Hunger). Myndin er byggð á samnefndri sjálfsævisögu Solomons Northup sem kom út árið 1853, skömmu eftir útkomu hinnar frægu metsölubókar Kofi Tómasar frænda eftir Harriet Beecher Stowe, en þessar bækur eru ekki síst taldar hafa átt þátt í því að bandaríska borgarastyrjöldin (þrælastríðið) braust út árið 1861.

Solomon Northup vann ýmis verkamannastörf í New York til að sjá fjölskyldu sinni farborða, en var einnig liðtækur fiðluleikari. Veturinn 1841 komu tveir menn að máli við hann og vildu ráða hann sem undirleikara í leiksýningu sem þeir sögðust vera með í bígerð. Solomon fylgdi þeim til Washington, en þar yfirbuguðu mennirnir hann og seldu hann síðan í þrældóm sem átti eftir að vara næstu 12 árin …

12 Years a Slave verður sýnd í  Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Ísafjarðarbíói, Selfossbíói og Bíóhöllinni Akranesi