10 mest spennandi myndirnar á RIFF í ár

Núna þegar kvikmyndahátíðin Reykjavík International Film Festival er alveg að skella á er um að gera og skoða aðeins hvað eru mest spennandi myndirnar á hátíðinni. RIFF hóf göngu sína árið 2004 og er því haldin í 18. skiptið þetta árið.

Líkt og áður er af nógu taka og alls konar safaríkir titlar í boði en undirritaður hefur tekið saman þær tíu myndir sem sem virðast vera þær mest spennandi á hátíðinni þetta árið.


BENEDETTA

Ný mynd eftir Paul Verhoeven er alltaf mikill viðburður. Benedetta hefur verið lýst sem “erótískri lesbíu-nunnumynd” en hún byggir lauslega á sannri sögu og segir frá ungri nunnu í nunnuklaustri á 17. öld sem byrjar að sjá sýnir og verður fyrir kynferðislegri uppvakningu í leiðinni. Myndin fékk góðar viðtökur á kvikmyndahátíðinni í Cannes í sumar og er ekki hægt að búast við öðru en að myndin verði skemmtilega ögrandi líkt og flest sem Verhoeven hefur sent frá sér. Og hún er þegar orðin umdeild.


WORST PERSON IN THE WORLD

Norsk kvikmyndagerð hefur aðeins sótt í sig veðrið aðeins undanfarinn áratug eða svo og má segja að leikstjórinn Joachim Trier sé þar fremstur meðal jafninga, en hann er líklega þekktastur fyrir mynd sína Oslo, 31 August. Myndin lýsir 4 árum í ævi ungrar konu að nafni Julie og hennar baráttu við sín fyrsta-heims vandamál. Renate Reinsve sem leikur Julie fékk verðlaun sem besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrir leik sinn í myndinni.


DRIVE MY CAR

Japanski leikstjórinn Ryushuke Hamaguchi vakti athygli fyrr á árinu þegar mynd hans Wheel of Fortune and Fantasy vann gullbjörninn í Berlín og núna rúmlega hálfu ári seinna hefur hann sent frá sér aðra mynd, sem er byggð á smásögu eftir hinn merka japanska rithöfund Haruki Murakami. Myndin segir frá leikara einum hvers eiginkona hverfur skyndilega. Myndin vann til þriggja verðlauna á kvikmyndahátíðinni í Cannes í ár, m.a. fyrir besta handrit.


BERGMAN ISLAND

Dansk-franska leikstýra Mia Hansen-Löve (Goodbye First Love, Eden) er hér með nýja mynd sem er fyrsta mynd hennar á ensku og skartar stórleikurum á borð við Tim Roth, Mia Wasikowska og Vicky Krieps. Myndin fjallar um par af kvikmyndaleikstjórum sem bregða sér til Farö, eyju sem Ingmar Bergman bjó á mestanpart ævi sinnar, til að skrifa sitthvort kvikmyndahandritið Myndin er að hluta byggð á sambandi Hansen-Löve og fyrrum eiginmanns hennar, leikstjórans Olivier Assayas (Carlos, The Clouds of Sils Maria)


FLEE

Flee er fulltrúi Danmerkur í kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs þetta árið og hefur einnig vakið mikla athygli á hinum ýmsu hátíðum og nú þegar unnið til 11 verðlauna, meðal annars sem besta erlenda myndin á Sundance. Þetta er kvikuð (e. animated) heimildamynd sem segir frá manni sem neyðist til að ljóstra upp um myrka fortíð sína þegar hann er að fara að gifta sig en hann flúði frá Afganistan til Danmerkur 20 árum áður.


COW

Breska leikstýran Andrea Arnold er þekkt fyrir nýraunsæismyndirnar sínar um líf unglinga á borð við Fish Tank og American Honey sem og að leikstýra seinni seríu þáttanna Big Little Lies, en Cow er hennar fyrsta heimildamynd. Myndin var tekin upp smám saman yfir margra ára tímabil og lýsir, eins og titilinn gefur til kynna, lífi kúar. Ekkert flóknara en það! Mynd sem allir dýraunnendur ættu vart að láta framhjá sér fara.


I’M YOUR MAN

I’m Your Man er þýsk vísindaskáldsögumynd um vísindakonu sem tekur þátt í rannsókn sem felst í því að lifa með vélmenni sem er forritað til að gera hana hamingjusama. Vélmennið er leikið af engum öðrum en Dan Stevens (Downton Abbey, Eurovision) en hann talar þýsku að þessu sinni! Myndin er framlag Þýskalands til óskarsverðlaunanna þetta árið og hefur fengið mikið lof á kvikmyndahátíðum.


CASABLANCA BEATS

Það hefur ekki farið mikið fyrir kvikmyndum frá Marokkó og því er gaman að sjá að mynd þaðan er að vekja athygli. Casablanca Beats gerist í hverfi í Casablanca sem er alræmt fyrir hryðjuverkastarfsemi en sagan fjallar um nokkur ungmenni sem reyna að setja á fót rapptónleika og hefur myndinni m.a. verið líkt við Fame. Casablanca Beats keppti um gullpálmann í Cannes í ár og er einnig framlag Marokkó til óskarsverðlaunanna.


A-HA: THE MOVIE

Hver elskar ekki A-Ha? Ný heimildamynd um sögu hljómsveitarinnar sem virkar eins og eitthvað sem enginn sem fílar A-ha ætti að láta framhjá sér fara. Jafnvel þótt hún gæti verið mjög hefðbundin er sjaldan leiðinlegt að horfa á mynd um sögu skemmtilegra hljómsveita, það er bara eitthvað svo heillandi við rokk- og poppstjörnulífið.


WOLKA

Síðasta mynd íslenska leikstjórans Árna Ólafs Ásgeirssonar sem lést nýverið fyrir aldur fram. Myndin er fyrsta kvikmyndin sem er gerð á Íslandi þar sem pólskir innflytjendur leika aðalhlutverkið, en Árni nam kvikmyndagerð í Póllandi og átti pólska eiginkonu og þekkti því vel til þessa heims. Með svo marga pólverja á skerinu er gaman að sjá loksins bíómynd sem tekur fyrir líf þeirra hér á landi.


Fleiri áhugaverðar:

Sisters With Transistors, Cryptozoo, Luchadoras, Petrov’s Flu