The SpongeBob Movie: Sponge Out Of Water trónir á toppi vinsældarlista helgarinnar yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum landsins. Yfir 10.000 manns sáu myndina hér á landi síðastliðna helgi.
Tíu ár eru liðin síðan fyrsta Svamps Sveinssonar kvikmyndin kom út, en hún hét einfaldlega SpongeBob SquarePants Movie. Svampur og hinn treggáfaði Pétur krossfiskur hafa alltaf notið mikilla vinsælda, bæði meðal barna og fullorðinna, en þættirnir voru fyrstu ódýru teiknimyndirnar frá Nickelodeon sem náðu viðlíka vinsældum.
Tom Kenny ljáir Svampi rödd sína á ný. Með önnur hlutverk fer m.a. Antonio Banderas, en hann leikur sjóræningjann Alameda Jack. Í myndinni eiga Svampur Sveinsson og félagar í höggi við þennan umrædda sjóræningja sem ætlar sér að ræna mikilvægu skjali sem er geymt í heimabæ þeirra á botni sjávar.
Í öðru sæti listans situr bangsinn Paddington, en nýjasta myndin um hann hefur skemmt gestum kvikmyndahúsanna núna í þrjár vikur. Paddington er ungur björn frá Perú sem hefur dálæti á Bretlandi. Hann ákveður að fara til Lundúna til að leita sér að nýju heimili, en hann áttar sig fljótlega á því að stórborgarlífið er ekki eins og hann ímyndaði sér. Hann kynnist góðhjartaðri fjölskyldu á Paddington-lestarstöðinni sem býður honum tímabundið athvarf. Svo virðist sem að gæfan hafi snúist honum í hag, allt þangað til að þessi sjaldgæfi björn fangar athygli uppstoppara sem vinnur á safni.
Í þriðja sæti er The Imitation Game. Myndin er sönn saga stærðfræðingsins Alans Turing sem smíðaði fyrstu tölvuna og réð með henni dulmál Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni. Winston Churchill sagði um Alan Turing að enginn annar einstaklingur hefði átt jafnstóran þátt í að bandamönnum tókst að vinna síðari heimsstyrjöldina á jafnskömmum tíma og raunin varð. Með aðalhlutverk í myndinni fara Benedict Cumberbatch og Keira Knightley ásamt Matthew Goode, Charles Dance og Mark Strong. Morten Tyldum leikstýrir.