Náðu í appið
Bönnuð innan 16 áraÍ myndinni er ljótt orðbragð

Drive 2011

Frumsýnd: 16. september 2011

There Are No Clean Getaways

100 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 93% Critics
The Movies database einkunn 78
/100
Nicolas Winding Refn fékk verðlaun fyrir bestu leikstjórn á Cannes kvikmyndahátíðinni 2011.

Myndin segir frá áhættuleikaranum Driver sem er gæddur snilldarhæfileikum í akstri bíla. Umboðsmaður hans, Shannon, er duglegur við að koma honum á framfæri við kvikmyndaframleiðendur en græðgi hans hefur einnig gert það að verkum að Driver tekur að sér kvöld- og næturstörf fyrir þjófa sem þurfa á flóttabifreið að halda. Dag einn kynnir Shannon... Lesa meira

Myndin segir frá áhættuleikaranum Driver sem er gæddur snilldarhæfileikum í akstri bíla. Umboðsmaður hans, Shannon, er duglegur við að koma honum á framfæri við kvikmyndaframleiðendur en græðgi hans hefur einnig gert það að verkum að Driver tekur að sér kvöld- og næturstörf fyrir þjófa sem þurfa á flóttabifreið að halda. Dag einn kynnir Shannon Driver fyrir hinum auðuga bófa Bernie Rose sem sér þegar hvaða hæfileikum Driver er gæddur og samþykkir að ráða hann í vinnu. Það, ásamt því að á sama tíma hittir Driver unga konu sem heillar hann upp úr skónum, setur í gang ófyrirsjáanlega atburðarás sem á heldur betur eftir að reyna á Driver við að halda velli og vernda þá sem standa honum næstir.... minna

Aðalleikarar


Ég bara get ekki orðabundist. Hvað er eiginlega svona frábært við þessa mynd?. Þetta er ein lélegasta mynd allra tíma sem ég hef séð. Endalaus atriði þar sem gaurinn starir bara út í loftið, týndur í eigin hugsunum. Svo til að bæta gráu ofan á svart þá voru þessi óþarfa ógeðslega ofbeldisfullu dráp í endinn og handritið hefur varla verið lengra en kanski tvær A4 blaðsíður.

HM.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Besta mynd ársins... án efa!
Fyrir nokkrum vikum var ég að horfa á Leon. Mynd sem flestir kvikmyndáhugamenn kannst við. Þegar ég horfði vakti myndin mig til umhugsunar af hverju myndir nú til dags væru ekki svona lengur. Flott kvikmyndataka en samt einföld og þægileg til áhorfs, góðir karakterar sem maður heldur með alla leið og maður hreinlega elskar.

Drive er þversögnin af því sem ég hélt fram um nýjar myndir og ég hef ekki séð mynd á seinustu árunum (eða sem kom út þá) sem hefur notfært sér stíl eldri mynda eins og þessi. Auðvitað eru til myndir sem tileinka sér 80‘s stíll og hvað annað en þær eru aldrei í stíl og aldrei líður mér eins og ég hafi séð eitthvað „old-school“. En núna, að Drive. Myndin er akkúrat þessi „old-school“ mynd sem ég hef beðið eftir í mörg ár.

Drive er samt ekki gallalaus enda eru þessar gömlu sígildi heldur ekki gallalausar (Leon, Payback, hvað annað) þótt að gallarnir séu heldur minniháttar. Fyrst og fremt hef ég smávægilegt að segja út á persónurnar. Þótt að Ryan Gosling fullkomnar sitt hlutverk og karakter hans mjög vel skrifaður og einnig mjög íkonískur (jakkinn hans er nánast eins og hattur Indy). Ryan Gosling er fullkominn og frábært val. Carey Mulligan gefur einnig allt sitt í myndina en það hefði mátt betrumbæta karakterinn hennar aðeins. Hún er samt vel skrifuð en um leið og hún hverfur af skjánum gleymir maður henni rosalega hratt og hún er talsvert fjarverandi í seinni helmingnum sem gerir lokasprettainn aðeins áhrifaminni en hann á að vera. En þetta er bara minniháttar og endirinn er flottur og áhrifaríkur en ekki alveg jafn mikið og senurnar sem leiða að honum.

Það er loksins komið að kostum! Fyrst og fremst er hérna besta hlutverkaval ársins (eða í sama sæti og Harry Potter en það er því maður venst þeim svo hrikalega) og hver einasti leikari gefur frá sér góða frammistöðu. Einhver er að fá óskarstilnefningu og ég veit það! Vona að þetta sé árið hans Gosling. Albert Brooks er einnig mjög eftirminnilegur og mér hefur aldrei líkað illa við Bryan Cranston sama hvort hann er yfirdrifinn pabbi, fremur rólegur dópframleiðandi eða hress og sjarmerandi umboðsmaður.

Kvikmyndatakan er gullfalleg og einmitt þessi þægilega og einfalda taka. Skotin eru gullfalleg og stundum dáðist ég bara að kvikmyndatökunni en söguþráðurinn hélt mér náttúrulega við efnið svo ég festist ekki í því. Tónlistin er einnig fullkomin og án djóks, tónlist hefur ekki passað svona vel við mynd síðan að Little Miss Sunshine kom út (random, en mín skoðun). Fallegasta lag myndarinnar ef ég þyrfti að velja frá öllum þessum meistaraverkum er Oh My Love og ég var dolfallinn yfir því.

„Fallegasta“ atriðið var svo annaðhvort lyftusenan (svona á að nota slow-motion) og svo fannst mér atriðið þar sem Gosling tekur Mulligan og son hennar í „lautarferð“ snemma í myndinni mjög hjartnæmt og skemmtilegt.

Þrátt fyrir að vera ekki gamanmynd í neinu samhengi var ég með asnalegt bros límt við mig út alla myndina sem stafar örugglega bara út af því hversu mikið meistaraverk þessi mynd er. Hefðu þeir bætt karakter Mulligans og endinn örlítið hefði hún jafnvel fengið fullt hús stiga en ég gef henni allavega níu stjörnur þar sem þetta er einmitt svona mynd eins og gömlu góðu.

Bravó!
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Með því besta á slöppu ári
Drive náði mikilli athygli á Cannes kvikmyndahátíðinni og fékk myndin verðlaun fyrir leikstjórn Nicolas Winding Refn. Myndin hefur fengið mikla athygli og eftirvæntingu síðan þá og er núna loksins að komast í kvikmyndahús alls staðar og aðalspurningin er þessi: Á hún eftirvæntinguna skilið?

Já, eiginlega.

Það sést augljóslega af hverju gagnrýnendur virðast elska hana. Hún er öðruvísi, hefur mjög sterka leikstjórn, gefur næstum öllum atriðunum nógu góðan tíma, stílísk og leikurinn er mjög góður.

Til að koma því neikvæða frá ætla ég að byrja á því. Án þess að segja mikið þá bjóst ég við miklu meira þegar kom að síðustu atriðunum. Ég veit að endirinn á að vera tákn fyrir einveruleika aðalkaraktersins (ekki ósvipað endunum í myndum á borð við Yojimbo og The Man With No Name þríleikinn) en uppbyggingin og spennan lét mig vilja meira en útkoman var.

En fyrir utan þennan galla þá virkar allt annað við myndina og þá sérstaklega leikstjórnin. Nicolas Winding Refn kemur með öfluga leikstjórn, með góðum leik frá öllu leikurunum, öflugu andrúmslofti, úthugsuðum skotum og sýna fremur en að segja. Myndin nýtir mikið langar þagnir sem virka fullkomnlega. Handritið er sterkt, raunhæft, frekar óútreiknalegt og byggir vel aðalkarakterinn upp (sem, eins og Clint Eastwood í The Man With No Name þríleiknum, aldrei segir hvað hann heitir).

Frammistöðurnar eru frábærar. Ryan Gosling hefur mikið verið að gera á þessu ári en auk þessar myndar og Crazy, Stupid, Love, sem er ekki ennþá komin úr bíói, mun hann líka leika í The Ides Of March seinna á árinu, leikstýrð af George Clooney. Gosling neglir aðalkarakterinn fullkomlega. Hann segir ekki mikið, en maður sér samt hvernig honum líður með svipbrigðum sínum, sérstaklega augun. Hann er eins og hjartameiri útgáfa af flestum öðrum karakterum sem segja lítið (eins og Eastwood, aftur). Hann stendur uppi sem einn eftirminnilegasti karakter ársins.

Hinir leikararnir gera mikið fyrir sinn karakter og líta lang flestir út eins og raunverulegt fólk, sama hversu stutt hlutverkið þeirra er. Fyrir mig voru Oscar Isaac, Albert Brooks og Carey Mulligan eftirminnilegust. Ég elskaði sérstaklega það að samband Gosling og Mulligan er ekki mikið byggt á hrifningu, heldur frekar að Gosling hefur einhvern til að tala og hanga með. Samspilið á millri allra leikaranna er frábært þó það sé auðvelt að segja að besta samspilið sé á milli Mulligan og Gosling.

Kvikmyndatakan er með þeim betri frá árinu (ef það er eitthvað sem ég get hrósað 2011 fyrir, þá er það frábær kvikmyndataka. Það er nær ótrúlegt að ég segi að ég hef séð betri kvikmyndaða mynd heldur en Drive á árinu: The Tree Of Life). Hvert einasta skot er vel úthugsað og Refn nýtir sérstaklega vel skugga. Stíllinn hans; skuggaskotin, hversu hæg myndin er, spennuuppbyggingin, aðalkarakterinn sem er dularfullur, sterkur en segir ekki mikið og löngu þagnirnar, láta myndina líta út eins og mjög góð blanda af klassískum noir og vestra. Klippingin er góð, myndin kemur með nokkur mjög góð slow-mo skot og soundtrackið er frekar skemmtilegt og einkennandi.

Hægt og rólegt flæði myndarinnar lætur öflugu atriðin vera meira öflugri. Spennuatriði í myndinni eru ekki rosalega mörg en þar sem mesti hluti af fyrsta hálftímanum er að kynna karakerinn hans Gosling og fólkið í lífinu hans, þá ná þau að verða óvænt og vel gerð. Eitt eftirminnilegasta atriðið gerist í lyftu og það kom á óvart hversu grafískt ofbeldið var í því atriði. Löngu þagnirnar í myndinni nýtast líka frábærlega í spennuatriðunum.

Hefði myndin gefið sér betri tíma með endann hefði hún fengið hærri einkunn. Og núna þegar þrír og hálfur mánuður er eftir af árinu, þá stendur hún uppi sem þriðja besta mynd ársins á eftir The Tree Of Life og Harry Potter And The Deathly Hallows: Part II.

8/10
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Hægur bruni sem heldur manni límdum
Drive er ein af þessum myndum sem á algjörlega eftir að bræða kvikmyndaunnendur. Hún er múdí, villt, óútreiknanleg og gjörsamlega koksandi á stíltengdum gotteríum sem gera hinar ómerkilegustu senur að einhvers konar listaverki. Þar að auki er leikstjórnin markviss, leikurinn óaðfinnanlegur, handritið beitt og frásögnin fersk og óhefðbundin. Keyrsla myndarinnar og atburðarás er nokkurs konar blanda af film noir og hráum vestra af gamla skólanum, og nöfn eins og Michael Mann og Sergio Leone koma strax upp í hugann. Flæðið í myndinni á einmitt ekki eftir að hitta í mark hjá mörgum, þá aðallega þeim sem horfa ekki mikið á kvikmyndir, og ef stíllinn grípur þig ekki á fyrsta hálftímanum er ólíklegt að það sem eftir er geri það.

Samspil leikaranna, rólegi tónninn og ekki síst einkennilega tónlistarnotkunin gerir það að verkum að maður er á köflum hálfpartinn í leiðslu og þótt ég gangi ekki svo langt að kalla myndina einhverja snilld, þá eru engu að síður nokkur brilliant atriði í henni sem munu lengi geymast í hausnum á mér.

Reyndar hefur öll myndin þannig áhrif að hún situr talsvert lengi eftir í minninu og verður eiginlega betri eftir því meira sem ég hugsar um hana. Upplifunin sem hún leynir á sér bætir ánægjulega upp fyrir lítið efnisinnihald og payoff-endi sem er næstum því ófullnægjandi og kraftlaus. Myndin nýtir sér sniglahraða sinn til að læðast upp að manni á bestu stöðum með óvæntu (og huggulega grafísku) ofbeldi sem maður bregst við eins og maður sé á staðnum. Spennuuppbyggingin í myndinni er annars meistaralega góð og spilar leikstjórinn glæsilega með lágstemmda tónlist og langar þagnir. Ekki vissi ég að bankaránssena gæti t.d. verið svona spennandi án þess að maður sjái nokkuð annað en flóttabílstjórann bíðandi fyrir utan. Magnað atriði! Leitt að lokasenurnar voru ekki á sama pari.

Danski fagmaðurinn Nicolas Winding Refn er orðinn einn af þessum leikstjórum sem ég skammst mín ekki fyrir að hafa uppgötvað fyrr af einhverju viti. Ég hef séð eitthvað af fyrri verkum hans en lítið pælt í leikstjóranum sjálfum, en eftir að hafa séð þann gígantíska áhuga sem hann dælir í Drive fer það ekki á milli mála að ferillinn hans er eitthvað sem þarf að grandskoða á ný. Trúlega erum við að ræða um einhvern vanmetnasta kvikmyndagerðarmann síðustu ára, og það sést að Refn setur sinn stimpil á hverja einustu senu og finnur sér alltaf leið til að gera efnið sem áhugaverðast. Það má þó vera að heildarsvipurinn rámi í Leone og Mann, en það er einnig keimur af Sam Peckinpah og David Cronenberg. Hver einasti rammi er samt útpældur, efnislega og myndatökulega séð, og er greinilega séð til þess að þér líði aldrei eins og þú sért staddur á Hollywood-svæðinu.

Leikararnir eru sömuleiðis rafmagnaðir alla leið. Af öllum svokölluðu "pretty boy" leikurum sem eru starfandi í dag er Ryan Gosling án efa sá kjarkmesti. Það tók hann ekki langan tíma að jarða ímynd sína sem nýi Hollywood-súkkulaðistrákurinn eftir The Notebook. Myndir eins og The Believer, Half Nelson, Blue Valentine, þessi og meira að segja Crazy Stupid Love sýnir að þessi maður getur tæklað nánast hvaða hlutverk sem er. Við erum að ræða um strákinn sem bætti á sig 27 kg fyrir The Lovely Bones án þess að spyrja neinn (honum fannst það bara henta persónunni) sem hann var síðan rekinn fyrir. Í Drive er Gosling alveg til fyrirmyndar og ég er viss um að hann hafi tekið hlutverkið lengra en stóð en í handritinu. Hann er eins og Clint Eastwood í spagettívestrunum, bara með 10 sinnum stærra hjarta. Karakterinn hans er dularfullur, harður, mjúkur, óstöðugur og almennt risastórt spurningarmerki og Gosling feilar ekki á einu einasta sviði.

Aukaleikararnir gefa stráknum ekkert eftir, og það segir í rauninni heilan helling. Bryan Cranston, Carey Mulligan, Ron Perlman, Oscar Isaac og Albert Brooks eru öll stórkostleg. Brooks stendur samt mest upp úr aukaleikurunum. Jafnvel Christina Hendricks gerði meira en gott úr agnarsmáu hlutverki og fær í staðinn einhverja minnisstæðustu senuna í allri myndinni.

Þegar öllu er á botninn hvolft hef ég ekki nema eitt að segja: Gefðu myndinni tækifæri ef þú vilt taka þér langþráð frí frá meginstraumnum. Hún er að minnsta kosti ein sú besta sem ég hef séð á þessu ári hingað til.

8/10

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Einmanaleiki ökuþórsins
Nafnlausi ökumaðurinn (Gosling) í kvikmynd danans Nicholas Winding Refn er maður fárra orða. Hann sækir sterkt í brunn „nafnlausa mannsins“ sem Eastwood gerði garðinn frægan með í spaghettívestrum Sergio Leone, en einnig í minnið um borgarsamúræjann, sbr. Alain Delon í „Le Samourai“. Einstaklingur sem lifir eftir sterkum persónulegum gildum sem hann hvorki útskýrir né að því virðist gerir sér fyllilega grein fyrir að stýri hegðun hans upp að því marki sem þau gera.

Refn hefur verið að sækja í sig veðrið sem einn af fremstu leikstjórum Danaveldis á undanförnum árum með kvikmyndum eins og „Bronson“ og „Valhalla Rising“, og stimplar sig með þessari mynd sem einn af áhugaverðari leikstjórum samtímans. „Drive“ minnir að sumu leyti á fyrstu kvikmyndir Michael Manns, eins og „Thief“, og á það sameiginlegt með öðru verki Manns, „Collateral“ að vera ein af þeim fáu kvikmyndum sem sem sýnir aðra hlið af Los Angeles en áhorfendur eiga að venjast. Hvorki er einblínt á Hollywoodhæðir, né sveitt fátækrahverfin, heldur fær gyllt áferðarfegurðin að njóta sín í samfloti við stórborgarfirringuna. Borgin er í raun ein af persónum myndarinnar og er sett fram sem staður sem hægt er að eyða allri ævinni án þess að þekkja eða tengjast neinum nema á hversdagslegan og yfirborðskenndan hátt. Stafræn áferð myndarinnar, frábær notkun á slow-motion, lágstemmd (en áþreifanleg) stemming, ásamt tónlistar og lagavali myndarinnar (sem er eins og beint upp úr 80s þriller, sérlega vel heppnað) býr til sérlega samstæða og stílfærða heild, sem er eins og ferskur andblær í mikið til staðlaða og staðnaða kvikmyndagerð samtímans.

Þegar við hittum nafnlausa ökuþórinn okkar virðist hann hafa verið einn á báti árum saman. Hann starfar á þremur vígstöðum; við viðgerðir á bílaverkstæði, sem áhættubílstjóri í kvikmyndum og sem flóttabílstjóri fyrir innbrotsþjófa. Öll þrjú störfin nálgast hann með nákvæmlega sama viðhorfinu. Með rólegheitum, yfirvegun og kaldrifjun, en er þó nægilega einmana til þess að gleðjast yfir því (á sinn hátt) þegar ung móðir (Mulligan) og sonur hennar flækjast inn í líf hans. Frekar er gefið til kynna að hann fagni félagsskapnum heldur en að mikillar kynferðislegrar spennu sé að finna á milli þeirra. Allavega er hann fljótur að jafna sig á því þegar eiginmanni Mulligan er sleppt úr fangelsi og kemur aftur heim til konu og barns. Hinsvegar flæjast málin þegar þrjótar sem eiginmaðurinn skuldar verndarfé krefjast þess að hann brjótist inn hjá ákveðnum veðlánara ella fari illa fyrir konu hans og barni, og fær eiginmaðurinn ökumanninn Gosling með í lið með sér sem flóttabílstjóra við ránið. Ekki fer allt að óskum og neyðist ökuþórinn til þess að taka málin í sínar hendur með ófyrirséðum afleiðingum. Einn af þrjótunum er leikinn af Albert Brooks, sem betur var þekktur sem gamanleikari á árum áður í verkum eins og „Broadcast News“ og „Defending Your Life“ en hann á frábæra endurkomu hér og sýnir á sér nýja og harðari hlið. Gamla brýnið Ron Perlman og skutlan Christina Hendricks úr „Aðþrengdum Eiginkonum“ fylla svo út í leikaraval myndarinnar og skila bæði sínu feikna vel.

Fljótt á litið er auðvelt er að líta upp til ökuþórsins nafnlausa. Hann lætur ekkert yfir sig ganga, virðist óttalaus og ver sín gildi án tillits til persónulegs fórnarkostnaðar. Gróft ofbeldi hans, meira sláandi vegna annars rólegar stemmingar myndinnar í heild sinni, myndi í öðru verki og öðru samhengi vekja aðdáun hins Hollywood-skilyrta áhorfanda en Refn virðist þó hafa meiri áhuga á því að sýna okkur hversu tómlega tilveru slík gildi og hegðun færa.

Ólíkt öðrum fasískum hetjum/andhetjum, (sbr. Dirty Harry erkitýpan) er eftirmál myndarinnar ekki tilfinningaleg hreinsun fyrir áhorfendann, heldur finnur hann sterkt fyrir einmanaleika ökuþórsins er hann keyrir einn út í nóttina.
Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Tengdar fréttir

30.12.2023

Lengi talið að Bandaríkjamenn hefðu ekki áhuga

Það tók hinn áttræða leikstjóra Michael Mann þrjátíu ár að koma hinni ævisögulegu Ferrari, kvikmyndinni sem frumsýnd var fyrr í vikunni hér á Íslandi, á hvíta tjaldið. Á því tímabili hefur hann margsinnis...

11.10.2023

Vissirðu þetta um nýju Scorsese myndina?

Nýjasta mynd leikstjórans Martin Scorseses, Killers of the Flower Moon verður frumsýnd á Íslandi þann 20. október nk. Með aðalhlutverk í myndinni fer bandaríski leikarinn Leonardo DiCaprio, en þeir félagar hafa unnið í...

19.03.2023

Fastur á miðlífsöld í 65 - heillaður af heimunum

Adam Driver, aðalleikari vísindatryllisins 65 sem komin er í bíó segir í samtali við vefsíðuna Looper, spurður að því hvað heilli hann við vísindaskáldsögur, eins og 65 og Star Wars: The Force Awakens frá árinu 2015 þar s...

Svipaðar myndir



Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn