Hin frábæra heimildarmynd Searching for Sugar Man eftir Malik Bendjelloul, sem nú er sýnd hér á landi, hefur verið tilnefnd í flokki heimildarmynda, til verðlauna sem veitt eru árlega af Producers Guild of America, PGA, en myndin er sú best þekkta af þeim myndum sem tilnefndar eru í ár.
Searching for Sugar Man fjallar um enduruppgötvun á gleymdum tónlistarmanni að nafni Rodriguez sem gaf út tvær plötur í byrjun áttunda áratugarins í Bandaríkjunum, en síðan ekki söguna meir.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Hinar myndirnar fjórar sem tilnefndar eru er mynd Jon Shenk um brottrækan forseta Maldaví eyja, The Island President, saga körfuboltaliðs Litháen á Ólympíuleikunum árið 1992 eftir Marius A. Merkevicius, saga nokkurra meðlima ísraelsku leynþjónustunnar eftir Dror Moreh, The Gatekeepers, og mynd Aaron Yeger um Roma fólk ( sígauna ) í Evrópu, A People Uncounted.
Á meðal mynda sem ekki hlutu náð fyrir augum dómnefndar voru til dæmis eineltismyndin Bully, sem var sýnd hér á landi, The Queen of Versailles, The Imposter, Samsara, West of Memphis og The Invisible War.
Af myndunum fimm þá er Searching for Sugar Man eina myndin sem einnig er tilnefnd í efsta flokki IDA verðlaunanna og Cinema Eye Honors, verðlaunanna, en þessi tvö verðlaun eru þau eftirsóttustu sem veitt eru ár hvert í flokki heimildarmynda í Bandaríkjunum.