Aðalleikarinn í Hringadróttinssögu þríleiknum, Elijah Wood, sem lék Hobbitann Fróða, er sagður eiga að leika í tvíleik Peters Jacksons, The Hobbit, en þær myndir eru nú í undirbúningi. Eins og menn vita er The Hobbit eftir sama höfund og höfund Hringadróttinssögu, J.R.R. Tolkien. Það sem kannski veldur nokkrum heilabrotum er það hvernig Fróði á að passa inn í söguna, enda kemur hann hvergi við sögu í bókinni, sem myndirnar tvær eru byggðar á. En samkvæmt Empire, sem hefur sínar heimildir frá Deadline vefnum, þá er aðkoma Wood að myndinni orðin fastsett, og geta menn þá farið að velta vöngum yfir því hvert hlutverk Wood / Fróða verður.
The One Ring vefsíðan telur að Fróði gæti orðið einhverskonar sögumaður í myndinni, en annars er allt óljóst á þessu stigi.
Tökur eiga að hefjast í næsta mánuði en meðal leikenda eru ásamt Wood þau Martin Freeman, Richard Armitage, Cate Blanchett, Sylvester McCoy, James Nesbitt, Mikael Persbrandt, Aidan Turner, Rob Kazinsky, Graham McTavish, John Callen, Stephen Hunter, Mark Hadlow, Ken Stott, Ryan Gages, Jed Brophy, William Kircher, Peter Hambleton, Adam Brown og haugur af ný-sjálenskum aukaleikurum.
Orðrómur hefur verið um að Ian McKellen, sem lék Gandálf í Hringadróttinssögu, og Andy Serkis, sem lék Gollum, verði með, og hið sama má segja um David Tennant og Orlando Bloom, sem Legolas.