The Weinstein Company, með þá bræðurna Harvey og Bob Weinstein í fararbroddi, hafa ákveðið að gefa skít í Motion Picture Association of America (MPAA), en samtökin ákvarða aldurstakmörk á kvikmyndum í Bandaríkjunum.
Heimildarmyndin Bully kemur út þann 30.mars næstkomandi í Bandaríkjunum á vegum The Weinstein Company, en myndin fjallar um einelti í bandarískum skólum á afar opinskáan hátt. Leikstjóri myndarinnar er Lee Hirsch. MPAA gáfu myndinni Rating R vegna orðbrags, enda sýnir myndin frá raunverulegum atvikum þar sem nemendur verða fyrir munnlegu einelti.
Weinstein bræðurnir voru gríðarlega ósáttir við þetta og heimtuðu að myndin fengi aldurstakmarkið PG-13, einkum vegna þess að það aldurstakmark gerir fleiri aðilum kleift að sjá myndina, en að sögn þeirra er það markmið myndarinnar að vekja athygli á einelti í bandarískum skólum. Það sé ekki hægt ef myndin er stimpluð með Rating R.
MPAA tóku ekki vel í þessi mótmæli og því ákváðu The Weinsten Company að gefa myndina út í kvikmyndahúsum vestanhafs sem Unrated. Það þýðir að myndin hefur í raun ekkert aldurstakmark, en fólk er almennt tortryggnara gagnvart Unrated myndum í bandarískum kvikmyndahúsum.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem MPAA verða fyrir gagnrýni, en samtökin hafa verið sökuð um að taka ansi skrýtnar ákvarðanir í gegnum tíðina. Það hefur meira að segja verið gefin út heimildarmynd þess efnis, en hún ber nafnið This Film Is Not Yet Rated og kom út árið 2006.
Bully kemur í íslensk kvikmyndahús þann 27.apríl næstkomandi. Íslenskt aldurstakmark hefur ekki verið ákveðið fyrir myndina.