Emma Watson mun að sögn taka að sér aðalhlutverkið í næstu mynd David Yates, mannsins sem leikstýrði síðustu fjórum Harry Potter myndunum. Umfang og efnistök myndarinnar er þó eins langt frá Potter og hugsast getur, en myndin byggir á endurminningum Emma Forrest sem einnig skrifaði handrit myndarinnar, og segir frá glímu hennar við geðhvarfasýki (bi-polar disorder). Myndin mun bera nafnið Your Voice in My Head.
Watson mun leika unga breska blaðakonu sem starfar í New York og virðist ganga allt í haginn, en fer smám saman að sýna merki um andlega vanlíðan og sjálfsskaðandi hegðun. Hún fer í meðferð hjá eldri geðlækni sem með óbilandi jákvæðni sinni hjálpar henni á betri braut. Inn í málinn flækjast svo ástir og örlög eins og gengur og gerist. Verið er að leita að leikara á borð við Tom Hanks eða George Clooney í hlutverk geðlæknisins.
Þetta lítur út fyrir að verða næsta mynd David Yates, og verður það örugglega velkomin tilbreyting fyrir hann. Honum hafði boðist að gera fleiri myndir í stærri kantinum líkt og The Stand eftir Stephen King (sem Ben Affleck mun nú leikstýra), og Doctor Who, en hefur greinilega ákveðið að snúa sér fyrst í átt að minni myndum og meira listræns frelsis. Þetta ætti einnig að vera gott tækifæri fyrir Watson að sýna að hvað í henni býr (annað en Hermione Granger).