Watson í mynd um valdarán síleska hersins

Fyrsta opinbera myndin úr nýjustu kvikmynd Florian Gallenberger, Colonia Dignidad, leit dagsins ljós í dag og má sjá hana hér að neðan.

Með aðalhlutverk í myndinni fara Emma Watson og þýski leikarinn Daniel Brühl. Með aukahlutverk fara þau Richenda Carey, Vicky Krieps, August Zirner og Martin Wuttke. Myndin verður frumsýnd í september á næsta ári.

emma-watson-colonia

Myndin gerist árið 1973 og fjallar um parið Daniel og Lenu, sem blandast í valdarán síleska hersins. Daniel er handtekinn og er farið með hann til smáþorpsins Colonia Dignidad.

Lena ákveður í kjölfarið að reyna að bjarga honum en þegar þar er komið er henni sagt að allir sem þar eru séu meðlimir í túarlegum góðgerðarsamtökum. Lena kemst fljótt af því að samtökin eru í raun og veru sértrúarsöfnuður en hún gegnur samt í hann til þess að finna manninn sinn.

Einræðisherrann Augusto Pinochet komst til valda í Síle árið 1973 eftir byltingu hersins gegn Salvador Allende forseta. Byltingarmenn nutu stuðnings Bandaríkjanna á ýmsan hátt þó Bandaríkin væru opinberlega á móti byltingunni. Pinochet er talinn hafa pyntað um 30.000, tekið um 80.000 manns til fanga og látið myrða 1200-3200 manns, þar á meðal konur og börn.