Hrollvekjuleikstjórinn James Wan, leikstjóri hinnar stórgóðu The Conjuring sem er í bíó á Íslandi um þessar mundir, og sem er einnig leikstjóri hrollvekjunnar Insidious Chapter 2, sem er toppmynd helgarinnar í Bandaríkjunum, ætlar að snúa sér í framtíðinni að öðrum tegundum mynda og hætta að leikstýra hrollvekjum. Næsta verkefni Wan er að leikstýra Fast and the Furious 7 sem frumsýnd verður á næsta ári.
„Ég ætla að segja það opinberlega nú að ég er búinn með minn skammt af hryllingsmyndum. Conjuring og Insidious 2 eru síðustu hrollvekjurnar mínar,“ sagði Wan í nýlegu samtali við kvikmyndavefinn Moviefone.
„Ég hef eytt síðustu 10 árum af lífi mínu í þetta. Það er kominn tími á eitthvað nýtt.“
„Hollywood setur þig á ákveðna hillu. Ef þú gerir gamanmynd sem gengur vel, þá ertu gamanmyndagaurinn. Ef þú gerir vinsæla bílaeltingarleiksmynd þá ertu þannig gaur.“
Aðdáendur hrollvekjuformsins eru væntanlega slegnir yfir þessum fregnum, enda eru myndir Wan með þeim betri sem gerðar hafa verið á síðustu árum í þessu formi. Nægir þar að nefna fyrrnefndar myndir, og fyrstu Saw myndina.
„Þegar ég var að hanna nokkrar af „hrökkva-við“ senunum í Insidious og öðrum myndum sem ég hef gert, þá einfaldlega gekk ég í gegnum húsið mitt seint um kvöld með öll ljósin kveikt og upphugsaði allskonar óhugnanlegar senur, og atvik, og ef ég fékk hroll, þá vissi ég að þetta virkaði.“