David Fincher hefur unnið að því í talsverðan tíma að reyna að koma 20,000 Leagues Under The Sea á flot hjá Disney – eftir að útgáfa McG af ævintýrinu sökk endanlega til botns (takk, guð). Handritshöfndar hafa komið og farið, og leikarar einstaka sinnum verið orðaðir við hlutverk, en Fincher hefur greinilega ekki fundið það sem hanni leitar að. Þannig að hann hefur snúið til gamals samstarfsfélaga, en Andrew Kevin Walker, handritshöfundur Se7en, mun reyna við handritið. Þessi frétt kemur á hæla þeirrar að Fincher gæti unnið aftur með Eric Roth, handritshöfundi The Curious Case of Benjamin Button, við mynd um Kleópötru drottningu.
20,000 Leagues, eða bara Sæfarinn eins og bókin kallast á íslensku verður fersk nálgun á ævintýrið klassíska sem Jules Verne gaf út árið 1870, um Kaftein Nemo og risakafbát hans, Nautilus. Disney gerðu árið 1954 vinsæla kvikmynd með Kirk Douglas í aðalhlutverki eftir sögunni – og þeir vilja örugglega halda myndinni fjölskylduvænni í þetta skiptið líka. Þannig að við megum ekki búast við neinu eins dimmu og síðast þegar þeir Fincher og Walker störfuðu saman.
Vinnan við handritið er að hefjast, en ekki er þó víst að þetta verði næsta mynd Fincher. Hann er að klára amerísku Karlar sem hata konur núna, og er með nokkur verkefi í burðarliðnum, þar á meðal Kleópötru, sem gætu komið næst. Það verður samt áhugavert að sjá hvað Walker gerir við efnið, ef að handrit hans mun þóknast Fincher.