Vonarstræti, undir leikstjórn Baldvins Z, hefur verið valin besta frumraunin á Tallinn Black Nights kvikmyndahátíðinni í Eistlandi. Vonarstræti tók þátt í Tridens keppni hátíðarinnar, sem er ætluð fyrstu eða annarri kvikmynd leikstjóra frá Eystrasalts- og Norðurlöndunum. Að launum hlutu aðstandendur verðlaunagrip og 5.000 evra vinningsfé sem leikstjóri og framleiðendur deila með sér. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Júlíus Kemp, annar framleiðanda myndarinnar, veitti verðlaununum viðtöku auk þess sem Baldvin Z sendi þakklætiskveðju með myndskeiði. Baldvin gat ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna vegna anna við tökur á sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð, þar sem hann er einn leikstjóra ásamt Baltasar Kormáki og Óskari Þór Axelssyni.
Vonarstræti er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2015. Verðlaunaafhendingin mun fara fram þann 22. febrúar og allar tilnefningar verða kunngjörðar 15. janúar. Þá kemur í ljós hvort Vonarstræti verði tilnefnd til Óskarsverðlaun fyrir bestu kvikmynd á erlendu tungumáli.
Í tilkynningu Kvikmyndamiðstöðvar seigr einng að Vonarstræti hafi einnig hlotið aðalverðlaun fyrir bestu mynd á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi og hafi t.a.m. hlotið góðar viðtökur á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto og Zurich Film Festival, þar sem Hera Hilmarsdóttir hlaut sérstök dómnefndarverðlaun fyrir leik sinn í myndinni.
Þess má geta að Hross í oss, sem nýlega vann kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs, hlaut þrenn verðlaun á Tallinn Black Nights kvikmyndahátíðinni í fyrra, þar á meðal fyrir bestu frumraun líkt og Vonarstræti í ár.