Vinir verða óvinir í John Wick

Stórleikararnir Willem Dafoe og Keanu Reeves munu leika saman í myndinni John Wick. Þeir leika andstæðinga sem báðir eru leigumorðingjar. Keanue leikur Wick, en fyrrum besti vinur hans Marcus, sem Dafoe leikur, hvetur hann til að hætta í bransanum þegar eiginkona hans deyr.

dafoe

Leikstjórar myndarinnar eru David Leitch og Chad Stahelski, en í myndinni rekur hver fléttan aðra, sem snýst um þessa tvo atvinnumorðingja.

Eftir að kona Wick deyr, þá ákveður eitthvað glæpahyski að stela bíl Wick, með þeim afleiðingum að þeir drepa hundinn hans í framhaldinu, en það vill til að hann elskar hundinn útaf lífinu – ekki hvað síst vegna þess að hundurinn var gjöf frá eiginkonu hans heitinni.

Nú ákveður Wick að leita hefnda og eltir bílþjófinn uppi, en þá upphefst ný flétta, þar sem faðir þorparans er glæpaforingi í New York. Faðirinn leigir sér morðingja til að drepa Wick og nú máttu geta hver er ráðinn í verkið!  Enginn annar en Marcus! Núna eru leigumorðingjarnir orðnir óvinir og eltast hvor við annan.

Handrit skrifaði Derek Kolstad, en ekki er vitað hvenær tökur hefjast.

Næst er hægt að berja Keanu augum í myndinni 47 Ronin, sem frumsýnd verður 26. desember í Bandaríkjunum. Einnig mun hann leika á næstunni í vísindadramanu Passengers.

Dafoe réð sig nýlega til að leika í The Fault In Our Stars og leikur einnig í myndinni Out Of The Furnace, sem verður frumsýnd 31. janúar nk.,  A Most Wanted Man, Nymphomaniac og The Grand Budapest Hotel.