Vilja lausnargjald fyrir vampíruna

Í gegnum tíðina hafa vampírukvikmyndir gert margan ungan leikarann að stjörnu, allt frá Kirsten Dunst til Kirsten Stewart. Og bráðum getum við líklega sagt það sama um hina 13 ára gömlu Alisha Weir en hún er aðalleikkona hrollvekjunnar Abigail sem komin er í bíó hér á Íslandi.

Í myndinni leikur Weir ballerínu sem tekin er sem gísl og vilja ræningjarnir fá 50 milljónir Bandaríkjadala í lausnargjald frá föður hennar sem er glæpaforingi.

Fljótlega átta menn sig á að þeir hafa færst kannski aðeins of mikið í fang, þegar þeir komast að því að húsið sem þeir halda stúlkunni í er langt frá því að vera öruggt skjól. Abigail er í raun vampíra sem leikur sér að því að murrka lífið úr genginu, hverjum glæpamanninum á eftir öðrum.

Sýndi ballett á Zoom

Í samtali við Deadline segir Weir að hún hafi landað hlutverkinu eftir að hafa sýnt leikstjórunum balletthæfileika sína á fjarfundaforritinu Zoom. „Það var alltaf á listanum hjá mér að leika í hrollvekju,“ segir Weir. „Því ég hafði svo mikinn áhuga á upplifa hvort maður yrði raunverulega hræddur á tökustað og hvort leikararnir sem væru að hræða mann væru í raun ógnvænlegir þegar tökur fara fram.“

Hafandi litla reynslu af hrollvekjum þá beið Weir stórt verkefni. Það var flóknara en oft er því bæði þurfti Weir sem er írsk að tala með bandarískum hreim ásamt því að flakka á milli saklausu og sætu stelpunnar og svo yfir í hið rétta eðli aðalpersónunnar, vampírunnar með hið stjórnsama og ósvífna eðli – myrkraverunnar sem býr yfir gríðarlegum styrk og svörtum og beittum húmor.

Abigail (2024)

Aðgengilegt á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn6.6
Rotten tomatoes einkunn 83%

Eftir að glæpamenn ræna tólf ára gamalli ballerínu, dóttur valdamikils aðila úr undirheimunum, er það eina sem þeir þurfa að gera til að innheimta 50 milljóna bandaríkjadala lausnargjald að passa vel upp á stúlkuna eitt kvöld. Henni er haldið í afskekktu húsi uppi í sveit en...

„Ég var með ótrúlega góðan þjálfara með mér, Nancy Banks, sem hjálpaði mér að skilja persónuna og þessar tvær ólíku hliðar hennar,“ rifjar Weir upp. „Ég kallaði þær Abby og Abigail til að hjálpa mér að skilja á milli þeirra, þannig að á hverjum degi þegar ég var að lesa mig í gegnum handritið, þá var ég með tvo yfirstrikunarpenna til að leggja áherslu á mismunandi persónur.“

Mátti bara vinna í fimm tíma

Vegna laga um vinnu barna og ungmenna mátti Weir aðeins vinna í fimm tíma á dag, þó að hún hafi verið á tökustað í þrjá tíma til viðbótar í einkakennslu.
Einn áhugaverður hluti af ferlinu er að þar til nýlega var heiti myndarinnar og söguþráður algjört leyndarmál, sem þýddi að Weir þurfti að þegja yfir því í þónokkra mánuði. „Það var mjög erfitt að mega ekki segja frá því að ég væri að leika ballerínu-vampíru. Ég var svo spennt að segja öllum. Þegar vinir mínir sáu mig í fullum skrúða í hjólhýsinu, með tennurnar og augun, og allt blóðið, þá held ég að þeir hafi orðið fyrir smá sjokki.“

Byrjaði þriggja ára

Weir er fædd í Dublin á Írlandi og byrjaði að leika þriggja ára gömul og fetaði þar með í fótspor eldri systur sinnar. Hún byrjaði í söngleikjum eins og Annie og Galdrakarlinum í Oz en stóra tækifærið í kvikmyndum kom þegar hún lék aðalhlutverkið í söngleikjaútgáfu Matilda sem Netflix og Sony gerður árið 2022 upp úr Tony verðlaunuðum söngleik með sama nafni.