Kvikmyndaleikstjórinn Baltasar Kormákur segir að kvikmyndin Vikingr sem Universal kvikmyndaverið keypti af honum, og verður tekin hér á landi, gæti orðið stærsta fjárfesting á Íslandi eftir hrun.
Baltasar sagði í fréttum RÚV að bæði myndu margir íslenskir leikarar koma við sögu í myndinni, sem og stór erlend nöfn. Hann nefndi sem dæmi um hve fjárfrek myndi gæti orðið, að það að endurskapa Alþingi til forna, myndi kalla á mikla leikmynd og búninga, enda teldi hann að þúsundir manna hefðu sótt þingið heim fyrr á tímum.
Baltasar hefur gengið með hugmyndina að myndinni í maganum í mörg ár, og nú er verkefnið greinilega komið á rekspöl og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.
Til samanburðar þá kostuðu Hollywood myndir Baltasars, Two Guns og Contraband, um 7-8 milljarða íslenskra króna, að því er RÚV greindi frá.