Á blaðamannafundi ofurhetjumyndarinnar Captain America: Brave New World sem Kvikmyndir.is tók þátt í á dögunum á netinu ræddu aðstandendur myndarinnar, þ.á.m. forstjóri Marvel, leikstjóri, aðalleikarar ofl. ýmislegt er myndina varðar og svöruðu spurningum fréttamanna.

Á meðal viðstaddra voru m.a. leikararnir Harrison Ford og Anthony Mackie, en Ford leikur forseta Bandaríkjanna og Mackie leikur sjálfan Captain America.
Það fyrsta sem spyrjandinn á fundinum spurði Mackie að var hvað hefði skipt hann mestu máli varðandi það að taka við Captain America skildinum. „Að njóta,“ svaraði Mackie. „Stærsta málið fyrir mig, á fyrsta tökudegi, var að hitta alla sem ég hef þekkt í áratug núna, sem komu og óskuðu mér til hamingju,“ bætti hann við.
Hann sagði líka að fólkið á tökustað, eins og t.d. búninga- og hárgreiðslufólk, væri nú eins og hluti af fjölskyldu hans.

„Þetta var dálítið eins og þegar fólk fylgist með persónu vaxa og þroskast yfir langan tíma sem fær svo tækifæri til að blómstra. Þannig að ég var ánægður með að fá að gera það með fullt af því fólki sem ég hóf þessa vegferð með.”
Rétti skjöldinn
Forstjóri Marvel, Kevin Feige, var síðan spurður að því hvað það hafi verið sem sannfærði hann um að fyrirtækið ætti að búa til myndina.
„Sko, ég á við, þetta snerist allt um Sam Wilson sem Captain America og svo áfram. Við fylgdumst með honum í stærstu mynd okkar til þessa, Avengers: Endgame. Við sáum Steve Rogers rétta skjöldinn yfir til Sam Wilson. Við vildum halda áfram með þá sögu. Og þetta snýst líka alltaf um að kynna nýjar persónur til sögunnar, og þetta stórkostlega leikaralið gerði einmitt það.”
Eftir fund með nýkjörnum forseta Bandaríkjanna, Thaddeus Ross, er Sam skyndilega lentur í miðju alþjóðlegu verkefni. Hann þarf að kynna sér ástæður yfirgripsmikils samsæris áður en þrjóturinn sem stendur á bakvið það nær markmiðum sínum....
Julius Onah leikstjóri segir spurður um þýðingu þess að fá að leikstýra myndinni að það hafi verið honum mjög mikils virði. „Þú veist, Captain America serían er mitt í hjarta Marvel heimsins. Kapteinninn hefur alltaf verið frábær leiðtogi Avengers hópsins, en svo er það líka að sagan í þessari mynd er reglulega spennandi og áköf, en einnig hlý og tilfinningarík. Og ég var mjög spenntur fyrir þemanu í grunni sögunnar og hvernig allir hjá Marvel og leikaraliðið hafði samkenndina efst í huga, og sáu það besta í hverju öðru.
Þannig að þegar þú færð tækifæri til að segja sögu sem er pökkuð af hasaratriðum og með fullt af ótrúlegum tæknibrellum, en einnig með einstakar persónur og geggjað þema, þá er þetta bara draumur að rætast fyrir mig. Og að fá að leikstýra svona flottu leikaraliði er magnað.”

Kemur vonandi aftur
Spyrjandinn spurði Harrison Ford út í Rauða Hulk.
Nú hefur þú leikið forseta áður í kvikmynd, en hérna breytist hann í risavaxinn rauðan Hulk. Segðu mér frá þeirri reynslu. Hvernig var það, og finnst þér að Rauði Hulk eigi að koma aftur við sögu?
„Sko, ég vona að hann komi aftur,” svarar Ford. „Ég vona líka að hann geti mögulega breyst í eitthvað annað en Rauðan Hulk. Ég held að það ætti að vera hægt að skipta á milli Hulkmennsku og mannúðar, en það er ekki mín deild. Ég var mjög ánægður að fá tækifæri til að spreyta mig á þessum leikvelli. Hvílíkt lið og hversu hugmyndaríkur veruleiki sem þetta er.”
„Ég hlakkaði til að fá að fá að vera hluti af hasarnum. Ég held að persónan hafi passað mér vel. Mér var heiður sýndur að mega byggja á þeirri vinnu sem Bill [William] Hurt, hinn dásamlegi leikari, vann fyrir persónuna.”
Leikarinn Danny Ramirez er nú inntur eftir því hvernig það var fyrir hann að taka við hlutverki Falcon.
„Það hefur verið algjör heiður, að vera treyst fyrir þeim kyndli sem Anthony Mackie hélt á áður. Og að heyra hann segja sögur af öllum bréfunum sem hann skrifaði Kevin til að sannfæra hann um að ráða sig í Marvel heiminn, fannst mér reglulega virðingavert. En mér fannst líka einstakt að fá að vinna með mörgum af átrúnaðargoðum mínum og fá að dást að þeim leika á tökustað. Það var draumur sem rættist.”
Grjótharðar gellur
Shira og Xosha eru nú spurðar að þeirra hlutverkum og þjálfuninni sem þær lögðu á sig, en þær leika tvær grjótharðar gellur.
Xosha segir þjálfunina hafa verið mjög svala og skemmtilega „Ég fékk að stunda hnefaleika, og æfa mig að skjóta úr byssu.”
Nú er Giancarlo Esposito spurður um hlutverk sitt í myndinni, Sidewinder.
Þú átt ótrúlegan 50 ára feril að baki. Þetta er frumraun þín sem Sidewinder?
„Mér er heiður sýndur að fá að taka þátt í Marvel heiminum. Þau eru að gera kvikmyndir sem hafa þýðingu, og eru mikil skemmtun.

En dýptin í myndinni liggur í samböndum persónanna. Og samböndunum sem skapa samkennd, vináttu og traust, grunsemdir ofl. Mig langaði að eyða góðum tíma með genginu. Það voru einhverjir aðdáendur sem höfðu stungið upp á mér. En það sem kitlaði mig mest var að gera eitthvað nýtt og öðruvísi og að færa nýja persónu inn í þennan heim.
Ég ber mikla virðingu fyrir Anthony Mackie, sem Captain America, hann hefur svo mikla persónutöfra, en einnig leiðtogahæfileika og góða siðferðiskennd.”
Spyrjandinn beinir nú innsendri spurningu að Mackie.
Hvernig nálgast Sam það að vera leiðtogi á annan hátt en Steve Rogers? Hvaða einstöku áskoranir og tækifæri blöstu við Sam Wilson sem leiðtoga borið saman við Steve Rogers?
Heilindi og mannúð
Mackie: „Sko, ég held að Sam og Steve séu líkir á margan hátt. Ég held að það sé þessvegna sem Steve velur að gefa Sam skjöldinn, útaf einstökum heilindum hans og mannúð.“
Það er frábært. En síðast en ekki síst. Hvað er það Anthony Mackie sem þú vilt að áhorfendur taki með sér heim eftir að hafa séð þessa fallegu kvikmynd?
Mackie svarar og vitnar í samtal hans og Feige þar sem Feige segir að það muni taka tíma fyrir fólk almennt, og leikara og tökulið myndarinnar, að jafna sig á Avengers: Endgame. „Það var svo mikill tilfinningarússibani.“
Mackie bætir við: „Mér finnst Marvel hafa safnað hér saman besta tökuliðinu, besta handritinu, bestu leikurunum og besta mögulega tækifærinu til að gera bestu mynd sem hægt er. Og ég er stoltur af því,“ segir Anthony Mackie að lokum.