Ný stikla er dottin á netið fyrir stop-motion myndina Pirates! A Band of Misfits. Myndin er frá Breska fyrirtækinu Aardman Animation, þeim sömu og færðu okkur Wallace og Gromit, og Chicken Run. Þau hafa einnig gert hefðbundnari tölvuteiknimyndir á borð við Flushed Away og hina væntanlegu Arthur Christmas, en það er gaman að sjá að nú er snúið aftur í stop-motion aðferðina.
Leikstjórar eru Peter Lord og Jeff Newitt, og ævintýrið fylgir áköfum en örlítið áttaviltum sjóræningja (Hugh Grant). Hann dreymir um að verða valinn sjóræningi ársins (Pirate of the Year Award) og telur sig eiga góðar líkur á því. Með í áhöfninni eru leikarar á borð við Martin Freeman og Brendan Gleeson og á vegi þeirra verða holdsveikisjúklingar, vísindamenn, apar, páfagaukar og drottningar. Hér er stiklan:
Myndin kemur í bíó 6. apríl 2012 ef ekkert breytist. Þorir einhver að veðja að þetta verði besta sjóræningjamyndin sem við höfum séð síðan 2003?