Óskarsverðlaunahafinn Christoph Waltz leikur á móti Reese Witherspoon og Robert Pattinson í Water for Elephants, stórbrotinni sirkussögu byggð á samnefndri bók Söru Gruen. Waltz leikur August, hrottafenginn stjórnanda sirkussins og eiginmann aðalstjörnunnar, Marlenu (Witherspoon), en hún fellur fyrir ungum dýralækni (Pattinson) sem sér um eitt stykki geðþekkan fíl.
-Hvað heillaði þig við söguna?
Christoph Waltz: „Það er ekki auðvelt að lýsa því hvað heillar mann við sögu. Myndin fjallar um sirkus árið 1931, meira þurfti ég ekki. Stundum er það eitthvað smávægilegt sem gerir það að verkum að eitthvað er manni áhugavert. August á að vera vondi kallinn en maður verður að spyrja sig, er ill meðferð hans á dýrum nóg til að kalla hann vondann? Það er mjög einfalt að kalla hann vonda kallinn, en það er ekki nóg til þess að ég geti leikið hlutverkið. Hvað er svo ill meðferð á dýrum? Það sem þér finnst vera ill meðferð er líklega ekki það sama og var álitið svo árið 1931. Á þeim tíma var hugtakið ill meðferð á dýrum ekki til, þú máttir sparka í hundinn þinn ef þú vildir. Í dag væri maður handtekinn fyrir það sem hann gerir. Þessir einföldu sleggjudómar hjálpa mér ekkert við vinnu mína sem leikari.
Hefur þú einhvern tíma orðið svo reiður að þú vildir berja einhvern eða brjóta eitthvað? Af hverju gerðist það? Það var ekki af því að þú ert vondur. Það var líklega einhver birtingamynd pirrings eða hjálparleysis. Það er strax leikbærara fyrir mig. Á þeim tíma sem sagan gerist var ýmislegt til að pirra sig yfir, sérstaklega ef maður rak risabatterí eins og sirkus.
-Það hljómar eins og þér sé farið að þykja vænt um August, þú talar um hlutina frá hans sjónarhorni, réttlætir það af hverju hann hendir fólki úr lestinni sem voru sirkusnum ekki til gagns lengur, voru kannski of gamlir eða veikburða. Ertu „method“-leikari?
CW: „Þetta er nú einu sinni það sem ég fæ borgað fyrir. En nei, ég trúi ekki á þessa mýtu um að leikarinn þurfi að leysast upp og sameinast persónunni. Það eru hlutir sem ég geri í mínu starfi sem ég get heimfært upp á mýtuna. Ég horfi til dæmis á börn við leik og ég óska þess að ég gæti sökkt mér inn í einhvern heim eins og þau gera, en þau stúdera ekki persónur. Ég er ekki að segja að maður ætti ekki að sökkva sér í hlutina, en ég held að áherslan á persónustúdíur sé kannski of mikil.“
-Þannig að þú ert ekki þeirrar skoðunar að þú þurfir að verða að persónu August til að geta leikið hana?
CW: „Nei, og mér finnst ekki að maður þurfi að búa í indíánatjaldi í hálft ár áður en maður getir leikið indíána. Ég nota ímyndunaraflið mitt. Ég meina, ég verð hvort eð er aldrei indíáni í indíánatjaldinu. Ég verð alltaf leikari að leika indíána, þannig að ég ætti frekar að einbeita mér að því hvað það þýðir, hvað þarf til þess. Ég þarf ekki að verða persónan. Ég gæti það hvort sem er aldrei því ég hef ekki um neitt annað að velja en að vera ég sjálfur.“
-Hvernig var samstarfið við Reese og Robert?
CW: „Þau eru bæði frábærir samstarfsmenn. Við erum búin að eyða þremur mánuðum af ævi okkar saman og okkur líkar enn við hvort annað. Það er meira en margir geta sagt um makann sinn (hlær)!“
-Hvað er svo næst á döfinni hjá þér?
CW: „Ég er að leika í Three Musketeers, 3D útgáfunni. Þeir úthluta einu D-i á hverja skyttu (hlær). Það er frábært, handritið er stórskemmtilegt. Svo er Guy Ritchie-mynd á borðinu hjá mér, eða já, hún er svona í burðarliðnum, ég er búinn að hitta Guy Ritchie nokkrum sinnum og mér finnst hann stórkostlegur. Hann er mjög skarpur. Þegar ég sá fyrstu myndirnar hans hélt ég að hann væri villingur, en nei, hann er skarpur og ég er ánægður með það. Svo þegar við hittumst aftur (segir hann glettinn á svip), þá lofa ég að segja þér allt um persónu mína í Water for Elephants, August. Eða … kannski ferðu bara og sérð myndina?“
-Þýðing: Kolbrún Björt Sigfúsdóttir