Fyrsta stiklan úr ofurhetjumyndinni Venom, með Tom Hardy í titilhlutverkinu, var rétt í þessu að koma út, en í gær var fyrsta plakat myndarinnar birt.
Í stiklunni sjáum við að því er virðist uppruna ofurhetjunnar, og fáum smá innsýn í ofurkraftana sem hann býr yfir.
Venom, eða Eddie Brock eins og hann heitir, er fréttaljósmyndari, sem kemst í kynni við sníkjudýr utan úr geimnum, sem tekur sér bólfestu í honum.
Venom birtist fyrst í teiknimyndasögum sem hálfgert yfirtökusjálf Köngulóarmannsins, þ.e. Venom búningurinn lagðist yfir Spider-Man og yfirtók hann. Þetta gerðist fyrst í 252. hefti The Amazing Spider Man frá árinu 1984. Nokkrum árum síðar fór þessi vera úr Peter Parker, og yfir í ljósmyndarann Eddie Brock, og úr varð andhetjan Venom. Síðan þá hefur Venom birst í ýmsum myndum, og tekið sér bústað í ýmsum hýslum. Við sáum Venom síðast á hvíta tjaldinu í túlkun Topher Grace í Spider-Man 3 eftir Sam Raimi. Allar götur síðan sú mynd var frumsýnd árið 2007 hafa verið uppi sögusagnir um sérstaka Venom mynd, en allar tilraunir hafa hingað til farið út um þúfur, þar til nú.
Kíktu á stikluna og plakatið hér fyrir neðan: