„Heilt yfir er „Scary Stories to Tell in the Dark“ nokkuð vel heppnuð byrjun á einhverju sem gæti orðið ágætis hryllingsmyndasería“.
Á hrekkjavökunótt árið 1968 í smábænum Mill Valley álpast ungmennin Stella (Zoe Margaret Colletti), Auggie (Gabriel Rush), Chuck (Austin Zajur) og Ramón (Michael Garza) inn í drungalegt hús Bellows fjölskyldunnar sem ku vera reimt. Yngsti meðlimur þeirrar fjölskyldu, Sarah, hengdi sig árið 1898 en ekki fyrr en hún hafði verið ásökuð um alls kyns grimmdarverk gegn börnum. Sarah skrifaði sögur með blóði fórnarlamba sinna og Stella finnur bókina hennar og tekur hana með sér heim. Þá fyrst fara alls kyns voðaverk að eiga sér stað þegar nýir kaflar bætast í bókina og Stella og vinir hennar eru í stórhættu og eiga í vök að verjast gegn fornum fjanda sem enn á óuppgerðar sakir.
„Scary Stories to Tell in the Dark“ er byggð á þremur samansöfnum af hryllingssmásögum ætluð börnum og unglingum eftir rithöfundinn Alvin Schwartz og komu bækurnar út á 10 ára tímabili milli 1981 til 1991. Mexíkóski kvikmyndagerðamaðurinn Guillermo del Toro („Pan‘s Labyrinth“) er með puttana í framleiðslunni og handritaskrifum og áhrifa hans gætir víða; sér í lagi þegar kemur að draugasögunni sem keyrir framvinduna áfram. Nú hef ég ekki lesið þessar smásögur (er mun betur að mér í „Goosebumps“ bókaflokknum sem hefur getið af sér sjónvarpsþáttaseríu og tvær kvikmyndir) en aðdáendur hrósa efnistökunum og þeim fjölda persóna sem myndin nær að koma fyrir; þá bæði aðalkarakterum sem prýða þennan heim sem og eftirminnilegum vörgum og skrímslum sem slegið hafa í gegn hjá lesendum.
Myndin er hreint ekki slæm. Hún er smá tíma að koma sér í gang en fyrir vikið eru persónurnar vel kynntar og ágætis stemningu er búið að mynda áður en herlegheitin fara öll í gang. Norski leikstjórinn André Øvredal („The Autopsy of Jane Doe“) sýður saman fantagóð stök spennuatriði þegar ungmennin lenda í hættu og nær upp magnaðri stemningu á köflum. Hryllingurinn er þó aldrei svo svæsinn að manni ofbjóði enda er þörf á PG-13 stimplinum svo unglingarnir geti komist fylgdarlausir á myndina. Því miður nær myndin þó ekki að halda dampi allan tímann og tilviljanakennd atburðarrás í bland við frekar illa skrifaða framvindu draga eilítið úr heildargæðunum. Hún nær sér þó á strik á endasprettinum og slúttar öllu á góðan máta en skilur eftir nógu mikið af lausum endum (og mögulegum hliðarsögum) til að nægur efniviður sé til fyrir framhöld.
Hrærigrautur af skrímslum
Það er metnaður á ferðinni hér og heimurinn sem búinn er til er ríkulega samansettur af pólitískum óróa með Víetnam stríðið áberandi í bakgrunninum í bland við hugmyndaríkan hrærigraut af skrímslum og draugum sem herja á íbúa Mill Valley. Sé rétt haldið á spöðunum væri alveg hægt að hugsa sér meira af þessu. Ungstirnin standa sig prýðilega og Øvredal er vel fær um að láta hárin rísa. Svo er nafn del Toro alltaf nokkuð öruggur gæðastimpill.
Scary Stories to Tell in the Dark – 2019
Leikstjóri: André Øvredal
Handrit: Dan Hageman, Kevin Hageman og Guillermo del Toro
Leikarar: Zoe Margaret Colletti, Gabriel Rush, Austin Zajur, Michael Garza, Gil Bellows og Dean Norris