Ungverjar, Hollendingar, Norðmenn og Serbar eru þau lönd sem síðast hafa bæst við þau lönd sem hafa valið bíómynd til að keppa um Óskarsverðlaunin í flokknum besta erlenda myndin.
Ungverjar völdu The Turin Horse eftir Bela Tarr, Hollendingar völdu Sonny Boy eftir Maria Peters, Norðmenn völdu Happy, Happy, eftir Anne Sewitsky og Serbar völdu Montevideo, God Bless You!, eftir Dragan Bjelogrlic.
Happy, Happy, verður sýnd í New York og Los Angeles 16. september næstkomandi, en The Turin Horse verður sýnd í þessum mánuði bæði á kvikmyndahátíðinni í Telluride og Toronto, að því er TheWrap greinir frá.
Önnur lönd þar á undan sem hafa verið að velja myndir eru Austurríki, með myndina Breathing, og Suður Kórea með myndina The Front Line.
Mynd Austurríkismanna er leikstýrt af Karl Markovics, en hún var valin besta evrópska myndin í flokknum Directors´ Fortnight á Cannes hátíðinni í vor, en í þeim flokki í vor keppti einmitt Rúnar Rúnarsson með mynd sína Eldfjall.
Dómnefndin kallaði mynd Markovics dimma en jákvæða sögu, sem væri full af lífi, og leikurinn væri afbragð. „Myndin fjallar um ungan mann sem er nýsloppinn úr fangelsi, sem vinnur í líkhúsi í Vínarborg og er að leita að móður sinni.“
Mynd Ungverja, The Turin Horse, er innblásin af atviki úr lífi heimspekingsins Nietzsche ( sem kemur þó ekki fram í myndinni ). „The Turin Horse er róleg skoðun á daglegu lífi vagnstjóra á vagni sem dreginn er af hesti. Markmið myndarinnar, samkvæmt leikstjóranum, er að sýna „þyngsli hinnar mannlegu tilveru“ í gegnum nákvæma lýsingu á daglegri rútínu.
Myndin er tekin í löngum samfelldum tökum og er tveggja og hálfs tíma löng.
Sonny Boy frá Hollandi er gerð eftir metsölubók Annejet van der Zijl, sem byggð var á sannri sögu. Myndin gerist á þriðja áratug síðustu aldar, og fjallar um fjögurra barna móður sem verður ástfangin af mun yngri manni frá Surinam.
Happy, Happy er gamanmynd og vann The World Cinema Jury Prize á Sundance hátíðinni í ár. Myndin segir frá ungum giftum kennara. Bjartsýni og lífsgleði hennar er ögrað þegar að því er virðist fullkomin fjölskylda flytur inn í næsta hús.
God bless you frá Serbíu, Montevideo, God Bless You, var metsölumynd í heimalandinu og fjallar um þátttöku Júgóslava í heimsmeistaramótinu í knattspyrnu árið 1930 í Montevideo í Uruguay. Myndin er lauslega byggð á skáldsögunni Montevideo, Bog te video, eftir íþróttafréttamanninn Vladimir Stankovic.
Front Line frá Suður Kóreu gerist í vopnahléi í Kóreustríðinu árið 1951, og fjallar um suður-kóreskan liðþjálfa, sem kemst að skrýtnum hlutum þegar hann rannsakar dráp á yfirmanni í hernum.