Ef það er einhver grínmynd á öllu árinu sem mig langaði til að geta haft trú á og kannski jafnvel elskað, þá er ég hræddur um að The Watch hafi orðið þar fyrir valinu.
Skringilega vill svo til að mér er yfirleitt skítsama um Ben Stiller. Það er ansi merkilegt hvað einn leikari getur verið óspennandi til áhorfs þegar hann leikur einungis sjálfan sig í stað þess að búa til eitthvað sem flokkast sem almennilegur grínkarakter (samanber t.d. Zoolander eða Dodgeball). Ég veit heldur ekkert hvað mér finnst um Vince Vaughn í dag. Hann er búinn að leika Swingers-karakterinn sinn (sem, í rauninni, er enginn karakter, heldur bara hann sjálfur) frá upphafi, með kannski nokkrum undantekningum og mismunandi stillingum. Með rétta efnið í höndunum getur Vaughn komið mér í betra skap (eins og þegar hann heldur á Babúsku!), en oft vil ég bara að hann steinhaldi kjafti áður en ég fæ hausverk af munnræpunni hans. Annars getur Jonah Hill verið frábær einnig, alveg eins og hinir, en allt veltur á efninu. Richard Ayoade hef ég svosem ekki mikla skoðun á, fyrir utan æðislega litla mynd sem hann skrifaði og leikstýrði. Submarine heitir hún. Tékkið á henni!
Þá er allur lykilhópurinn kominn. Líkurnar á því að fjórmenningarnir skili einhverju góðu af sér voru voða upp og niður, en áður en myndin fór í gang reyndi ég að hundsa þá skelfilegu staðreynd að óvinur minn Shawn Levy væri einn af framleiðendunum og hugsaði um að leggja allt mitt traust til leikstjórans. Ég reyni að fara oftast ekki á bíómyndir með of mikla fordóma fyrirfram, nema einfalt raunsæi segir manni að hugsa annað, en þessa mynd langaði mig til að líka vel við. Það er ekki flóknara en þannig að síðasta mynd leikstjórans, Hot Rod, er í rugluðu uppáhaldi hjá mér. En daginn sem The Watch kemst á svipaðan stall mun ábyggilega vera sá dagur þar sem ég hef hlotið vægan heilaskaða, þó hún sé alls ekki slæm.
Klisjurnar sem finnast hér hafa verið ofnotaðar út í allar áttir. Mest allt sem sést í myndinni hefur verið gert áður og vissulega þrefalt betur. The Watch reynir og reynir að vera í líkingu við eitthvað eins og Attack the Block, ein af skemmtilegri myndum síðasta árs, en vekur í staðinn upp minningar af Evolution frá 2001, sem var auðgleymt flopp af góðri ástæðu. Í hvert sinn sem einhver brandari hittir í mark fylgir oftast fljótt á eftir annar sem steindrepst í flutningi (þó það sé einnig hægt að líta á þessa fullyrðingu með bjartsýnni augum og segja að hverju slöku atriði fylgir eitt gott). Handritið er frekar þreytt, úrelt og heldur ekkert brenglað fyndið eða fjölbreytt í húmornum. Ghostbusters-formúlan rennur fyrirsjáanlega í gegnum allt efnið og stærstu sameiginlegu einkennin hjá þessari mynd og Evolution eru yfirþyrmandi nýtingar á auglýsingum. Annaðhvort eru þetta auglýsingar dulbúnar sem brandarar eða brandarar klæddir upp sem auglýsingar. Sama hvort það er, þá eru djókarnir misheppnaðir í flestum þannig tilfellum.
Myndin virkar best þegar fjórmenningarnir leggja frá sér plottið og hanga bara saman. Þeir ná allir ótrúlega vel saman og eiga betur skilið. Það eru aðeins nokkrir grillaðir djókar sem benda til þess að þessi mynd gæti komið frá sama manni og færði manni Hot Rod og ýmsa Lonely Island-sketsa, en svona allt í allt er óttalegur stúdíó-nefndarkeimur af þessu öllu. Leikstjórinn hefur eflaust tekið mynd sem hefði getað orðið að hreinni hörmung og gert hana þolanlega. Það er eitthvað, en næst vil ég helst sjá hann taka eitthvað skemmtilegt efni og gera það enn betra. Hann ætti að geta það.
(5/10)