Fyrra orðið í titlinum Safe House gæti ekki verið meira viðeigandi til að lýsa framleiðslunni í heild sinni, því það er ótrúlega erfitt að finna spennumynd sem er svona klisjukennd, formúlubundin og tekur jafnfáar áhættur og þessi. Þetta er svosem enginn sjálfvirk ávísun á hörmulega bíómynd, en þetta þýðir samt að það séu litlar líkur á því að hún muni skilja nokkurn skapaðan hlut eftir sig. Strax og hún rúllar í gang fær maður endurlit á svipaðar myndir (en bara betri), og um leið og hún klárast þá hugsar maður hvort málið sé að horfa á aðra mynd eða bara henda sér í háttinn. Jafnvel þeir sem geta sagt að Safe House sé drullugóð mynd eiga ekki eftir að muna hvað hún heitir áður en langt um líður, og í staðinn verður hún í staðinn bara þekkt sem: „Æ, þarna spennumyndin með Denzel og Van Wilder (eða Green Lantern)-gæjanum.“
Safe House er það sem ég kalla klassískt „meh.“ Hún er nógu hörð, hröð, hávær og vel leikin til að vera ekki leiðinleg, en hún er alltof týpísk til að vera spennandi eða skemmtileg. Söguþráðurinn lýsir sér hvergi öðruvísi en að persónurnar séu á sífelldum hlaupum allan tímann án þess að eitthvað er gert til að bragðbæta handritið. Persónurnar eru eins og gamlar pylsur sem hafa verið geymdar í frysti í áraraðir, atburðarásina skortir rétta rafstuðið og frá fyrsta korterinu er stóra plott-twistið skömmustulega augljóst. Meira að segja svo augljóst að ég vonaðist til þess að ég væri bara að ímynda mér hluti, og að myndin væri í rauninni skynsamari en þetta.
Leikurinn er að vísu góður, eða að minnsta kosti er Denzel Washington fjandi góður að venju. Það er nú líka góð ástæða fyrir því að þetta er einn dýrasti leikarinn á markaðinum, þótt hann mætti nú alveg fara að taka sér frí frá hráum hasarmyndum (hann er alveg búinn að sprengja kvótann í bili og mætti snúa sér oftar að dramanu). Nærvera Denzels er að vísu ekki að gera Safe House mjög stóra greiða, því með honum í öðru aðalhlutverkinu er auðvelt hægt að fá þær ranghugmyndir að þetta sé enn einn Tony Scott-spennuþrillerinn. Myndin allavega lítur þannig út, og þegar einhver annar leikstjóri en Tony Scott gerir mynd sem hefur sama fíling og undanfarnar Tony Scott-myndir (með uppáhaldsleikaranum hans og allt), þá hverfa margir góðir kostir úr augsýn. Scott myndi samt aldrei gera svona þunna formúlumynd… oftar en einu sinni.
Sænski leikstjórinn Daniel Espinosa, sem gerði hina þrælfínu Snabba Cash í heimalandi sínu fyrir nokkrum árum, er alveg með það sem þarf til að gera flottan hasar. Hans tök á eltingarleikjunum og slagsmálasenunum ná rétt svo að yfirstíga pappírsþunna innihaldið, og hasarinn gerir myndina þess virði að klára. Slagsmálasenurnar eru mátulega harðar og raunverulegar, og eltingaleikirnir halda manni meira en vakandi. Espinosa er heldur ekki slæmur með leikara, eða þannig. Ryan Reynolds er ekkert mikið meira en fínn í þessari mynd, en hann sleppur samt alveg. Honum til varnar er persónan hans ekkert að heilla mann upp úr skónum heldur, og mér var allan tímann skítsama um hana. Annars er algjörlega óþarfi að ræða leikara eins og Brendan Gleeson, Veru Farmiga, Robert Patrick og Noru Arnezeder (sem leikur kærustu Reynolds). Þau fara öll með sínar línur án þess að svitna eða láta reyna á vöðvana. Semsagt léttur launaseðill og ekkert annað.
Safe House hefur ýmsar flottar senur vafðar utan um handrit sem er hlandvolgt miðjumoð og tekur engar áhættur. Ef stílísk hasarmynd með Denzel í aðalhlutverki og áhuga fyrir brengluðum klippingum er málið, þá er nóg af fínu efni til að velja úr ef þið skoðið ferilskránna hans Tony Scott. Og ef þessi rútína hjá Denzel er byrjuð að fara í ykkur, þá er alltaf hægt að snúa aftur að Bourne-myndunum. Safe House tekur margt líka frá þeim en gerir ekkert nýtt með það sem var ekki áður gert betur. Annars ágæt leigumynd ef peningaeyðslan er ekki mikil.
(5/10)
PS. Förum aðeins út í hugsunarferlið sem fór í þessa plakatshönnun: