Wayne Rogers, sem var best þekktur fyrir leik sinn í hlutverki her-skurðlæknisins Captain „Trapper“ John McIntyre í gamanþáttaröðinni Spítalalíf, eða M.A.S.H., er látinn. Hann lést á fimmtudaginn í Los Angeles í kjölfar lungnabólgu. Hann var 82 ára gamall.
Spítalalíf nutu mikilla vinsælda hér á landi á árum áður og því ættu margir Íslendingar að kannast við leikarann úr þáttunum.
Rogers lék í fyrstu þremur þáttaröðunum, en þær urðu 11 alls. Skurðlæknirinn var ein vinsælasta persóna þáttanna, og var þekktur fyrir sniðug tilsvör og samtöl við persónu Alan Alda, Hawkeye Pierce. Sagt er að hann hafi verið pirraður út í athyglina sem Alda fékk í þáttunum, og þessvegna hafi hann hætt eftir aðeins þrjár þáttaraðir.
Þó hann hafi hætt í þáttunum þá héldu þeir Alda góðum vinskap, en Alda sagði á Twitter: „Hann var klár, fyndinn, forvitinn og einbeittur,“ skrifaði Alda. „Við gerum með okkur samkomulag um að leggja okkur alla fram fyrir M.A.S.H. og það tengdi okkur traustum böndum.“
He was smart, funny, curious and dedicated. We made a pact to give MASH all we had and it bonded us. I loved Wayne. I’ll miss him very much.
— Alan Alda (@alanalda) January 1, 2016
Rogers lék líka í City of Angels, House Calls og Murder, She Wrote, og fleiri sjónvarpsþáttaröðum.
Hann fékk tilnefningu til Golden Globe verðlauna á seinni árum fyrir hlutverk í House Calls og hann lék í sjónvarpi langt fram á níunda áratug síðustu aldar.
Þó að leikferillinn hafi hægt á sér á tíunda áratug síðustu aldar, þá fór hann að fjárfesta af kappi í hlutabréfum og fasteignum, og kom reglulega fram sem álitsgjafi í fjármálaþættinum á Fox Business sjónvarpsstöðinni, Cashin’ In.
Hann lætur eftir sig eiginkonuna Amy, son og dóttur og fjögur barnabörn.