Kvikmyndaverið Paramount hefur tekið áætlað framhald á Terminator af frumsýningaráætlun ársins 2017, en Terminator sem frumsýnd var í fyrra, náði ekki tilætluðum árangri í miðasölu.
Upphaflega var áætlað að Terminator: Genisys yrði fyrsta myndin í nýrri þrílógíu þar sem upprunalegi tortímandinn Arnold Schwarzenegger og yngri leikarar, Emilia Clarke og Jai Courtney, leiddu saman hesta sína.
Myndin var frumsýnd síðasta sumar við blendnar viðtökur, en sem dæmi þá sagði gagnrýnandi breska blaðsins The Guardian, Peter Bradshaw, að myndin væri „ákaflega ónauðsynleg“. Myndinni gekk ekki heldur vel í miðasölunni, en í Bandaríkjunum seldust miðar fyrir aðeins 90 milljónir dala, sem er mun minna en vonast var eftir.
Aftur á móti hlaut myndin ágætar viðtökur utan Bandaríkjanna og þénaði 350 milljónir Bandaríkjadala, sem þýddi að ekki var loku fyrir það skotið að framhald yrði gert. Nú er hinsvegar ljóst að svo verður ekki.