Tom Cruise hefur greinilega tekið miklu ástfóstri við vísindaskáldskap. Nýbúið er að frumsýna myndina Oblivion sem gerist í framtíðinni, og væntanleg er hin mjög svo áhugaverða All You Need is Kill, sem fjallar um mann sem er sífellt að lifna aftur við eftir að hafa verið drepinn í orrustu við geimverur, dálítið eins og Groundhog Day!
Nú segir Empire kvikmyndaritið frá því að hann hafi tekið að sér hlutverk í enn einnig vísindaskáldsögunni, Yukikaze.
Hvorki er búið að ráða leikstjóra né handritshöfund fyrir myndina ennþá, en myndin verður kvikmyndaútgáfa af skáldsögu eftir Chohei Kamayashi, en bókin fjallar um það þegar geimverur sem kallast Jam gera árás á jörðina. Mennirnir búast til varnar og ákveða að fara til heimaplánetu JAM og berjast þar við verurnar.
Framleiðendur eru Erwin Stoff og Tom Lassally, sem eru einnig á bakvið fyrrnefnda All You Need Is Kill sem leikstýrt er af Doug Liman, og er væntanleg í bíó í mars á næsta ári.