Tíu ár eru liðin frá því að gamanmyndin Napoleon Dynamite var frumsýnd í Bandaríkjunum. Í myndinni segir frá hinum einstaka Napoleon Dynamite, sem vill ekkert frekar en að vera eins og allir hinir, en býr með ömmu sinni og 32 ára gömlum bróður sínum. Dynamite vill hjálpa besta vini sínum, Pedro, í að verða forseti bekkjarfélagsins, og hrifsa titilinn frá hinum illa innrætta Summer Wheatley.
Í vikunni hittust aðalleikarar myndarinnar á ný til þess að fagna afmælinu og voru þar Jon Heder, Efren Ramirez og Tina Majorino mætt ásamt fleirum. Til þess að toppa daginn var stytta til heiðurs myndinni afhjúpuð, en um er að ræða bronsstyttu af Napoleon Dynomite sjálfum í bolnum fræga.
Ásamt því að afhjúpa styttuna þá gátu aðdáendur spurt leikara og aðstandendur myndarinnar spjörunum úr og stóð þar hæst upp úr þegar lamadýrið Tina fyrirgaf Jon Heder fyrir að hafa kallað hana feita í myndinni.
Napoleon Dynamite er ein af þeim kvikmyndum sem var ekki búist við að myndi springa út líkt og hún gerði. Myndin kostaði einungis um 400 þúsund dollara og fékk aðalleikarinn Jon Heder einungis þúsund dollara fyrir sitt framlag fyrst um sinn.
Framleiðendur Napoleon Dynamite geta þakkað margverðlaunaðri markaðssetningu að hún varð ein arðbærasta kvikmynd sögunnar. Myndin skilaði í kassann rúmum 50 milljónum dala af kvikmyndasýningum eingöngu.