Nýjasta mynd Luc Besson hefur fengið stiklu, og kallast hún The Lady. Myndin fjallar um andlegan leiðtoga Burma, friðarverðlaunahafa Nóbels Aung San Suu Kyi, sem sat í yfir 15 ár í stofufangelsi. Michelle Yeoh fer með aðalhlutverkið og David Thewlis leikur eiginmann hennar Michael Aris.
Myndin mun gerast á árunum 1988 – 1999. Því verða kosningarnar 1990 hluti af myndinni, þar sem Lýðræðisflokkur hennar vann 60 % atkvæða á móti herstjórninni, og átökin eftir það, en kosningarnar voru sagðar ógildar af ráðamönnum. Á árunum 21 eftir það hefur hún setið samtals 15 ár í stofufangelsi, og verið meinað að hitta flokksmenn og samstarfsaðila sína. Bannað er að mæla nafn hennar í Búrma, og því hefur hún fengið gælunafnið The Lady, sem er einmitt titillinn á myndinni. Til að bæta á raunir fjölskyldunnar glímdi eiginmaður hennar við krabbamein á tímanum.
Luc Besson er ekki þekktur fyrir lágstemmdar myndir, og kallar Aang San Suu Kyi meiri hetju en Jóhönnu af Örk (sem hann hefur líka gert mynd um), hún hafi háð sína baráttu vopnalaust. Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto, og kemur út með haustinu í Evrópu.